Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stjórnarsáttmáli Framsóknar ó fyrirgefið, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks

Þessi stjórnarsáttmáli er nú fremur þunnt plagg sem hægt er að toga og teygja í allar áttir. Það eina sem er ljóst að það verður haldið áfram á sama hátt og áður og það eina sem breytist er að nú er það Samfylkingin sem er meðreiðarsveinn Sjálfstæðismanna en ekki Framsókn. Eflaust geta Samfylkingarmenn lesið eitthvað af eigin stefnumálum út úr þessu með góðum vilja en það verður erfitt að koma málum fram á grundvelli þessa sáttmála. Hvar er til að mynda stóriðjuhléið margumtalaða? Björgvin G. lofaði landsmönnum að þeir yrðu áþreifanlega varir við að fá Samfylkinguna í stjórn en mín spá er sú að enginn muni taka eftir neinu og Samfylkingin verði komin niður í léttvínsfylgi innan tveggja ára. 

Hvað gera hluthafarnir?

Nú er spurningin hversu margir hluthafar taka tilboðinu frá Alcoa og síðan hvað framhaldið yrði ef meirihluti þeirra myndi taka því. Þá kæmi að samkeppnisyfirvöldum að meta samrunann og hvort að hann yrði leyfður. Það er því ekki allt búið eins og margir halda þrátt fyrir að stjórnin mæli gegn samruna.
mbl.is Alcan hafnaði yfirtökutilboði Alcoa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er dómskerfi íhaldsins

Traust almennings á íslenska dómskerfinu var nú ekki mikið fyrir. Eftir að hafa náð fram sakfellingu í broti af þeim ákærum sem gefnar voru út í Baugsmálinu bætist handvömm eins og þessi ofaná. Ætli það sé einhver von til þess að einhverjir aðrir en sjálfstæðismenn fái þetta ráðuneyti og taki til í þessu rotna bæli dugleysisins.
mbl.is Gleymdist að gera kröfu um refsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Et tu Brute

Það er ótrúlegt hvað sjálfstæðismenn eru snöggir að fara í varnarstöðu þegar Jón Sigurðsson sakar þá um óheilindi. Það er amk. erfitt að bera í bætifláka fyrir svona framkomu. Hefði átt að vera óþarfi að ljúka 12 ára samstarfi á þennan hátt. Það er samt alveg ljóst að hvort sem það var elska sjálfstæðismanna á kjötkötlunum eða rótgróinn ótti þeirra við vinstri stjórn þá eru það alltaf sömu skítabrögðin sem gripið er til.

Eftirfarandi er mín túlkun á atburðarrásinni frá sunndegi til fimmtudags

Aðfaranótt sunnudags: Framsóknarmenn lýsa því yfir að ólíklegt sé að þeir komi að stjórnarsamstarfi

Sunnudagur: Geir og sjálfstæðismenn láta í það skína að þeir séu tilkippilegir í að halda samstarfinu áfram

Sunnudagskvöld: VG gerir möguleika á vinstristjórn nánast að engu í beinni og með því leikinn auðveldari fyrir Geir.

Mánudagur: Viðræður milli Geirs og Jóns um áframhald ríkisstjórnar en á meðan eru sjálfstæðismenn í viðræðum við samfylkinguna

Þriðjudagur: Lítið virðist gerast á milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks en allt á fullu í bakherbergjunum hjá S&D

Miðvikudagur: Farnar að renna tvær grímur á Framsóknarmenn enda farið að leka út um viðræður S&D.

Fimmtudagur: Viðræðum slitið milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks og 90 mínútum síðar hefjast viðræður formanna S&D.

Fimmtudagskvöld: VG réttir fram sáttahönd til Framsóknarmanna og hvetur til hefðbundinnar vinstri stjórnar en er það of seint?

 

Eins og flestir vita þá er það klassísk taktík að reyna að deila og drottna til að ná sínu fram. Spurning hversu rólegur Geir er núna þegar Solla er annan kost til vara ef hann býður ekki nógu vel. Þetta gætu orðið vikur hinna löngu hnífa.


Steingrímur hleypur með sáttahönd til Framsóknar

Það var kyndugt að sjá Steingrím J. í Kastljósi kvöldsins. Eftir að hafa haldið áfram að kosningabaráttu lokinni að berja á Framsóknarmönnum og að hafa fundið vinstri stjórn með þeim innanborðs flest til foráttu nema ef hægt væri að nota Framsóknarmenn sem hækju þá snýr hann nú við blaðinu og réttir fram ólífugreinina. Hvað ætli valdi þessu? Jú Steingrímur sá sitt tækifæri um að komast í stjórn með Sjálfstæðismönnum fjúka út um gluggann og til að bjarga andlitinu þá hleypur hann til með ólífugreinina til að reyna að láta líta út fyrir að það sé Ingibjörg sem eyðileggur vinstri stjórnina en ekki hann.

Það ætti svosem ekki að koma Steingrími á óvart að svona færi því Sjálfstæðismenn hafa alltaf gætt þess að halda frumkvæði í stjórnarmyndun til að tryggja sér að verða ekki skildir eftir á hliðarlínunni. Ef Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að ræða við þig á bak við tjöldin eftir kosningar þá er hann að þykjast ræða við þig opinberlega eða hefur engan áhuga á að fara með þér í stjórn. Það er ljóst að vinstri flokkarnir eiga margt ólært í stjórnmálaklækjum og það er spurning hvort að Steingrímur Hermannsson þurfi að taka vinstri menn á námskeið í þessu.

En ekki er sopið kálið fyrr en í ausuna er komið og eftir að  Steingrímur er mættur með ólífugreinina til Framsóknar er nú möguleiki fyrir ISG að næla sér í forsætisráðherrastólinn og því gæti hún nú dobbelblöffað sjálfstæðismenn og skotið þeim ref fyrir rass.

Sjáum hvað setur 


Útstrikanagleði í Reykjavík suður

Mikið hefur verið rætt um útstrikanir í Reykjavík suður og þá helst í tengslum við Björn Bjarnason. Það sem vekur hinsvegar athygli mína er það hve fáar útstrikanir Jónína Bjartmarz fékk. 50 útstrikanir eða 2,36% af atkvæðum Framsóknar höfðu útstrikanir með nafni Jónínu. Eftir darraðardans undanfarinna vikna átti maður von á öllu meira af slíku. 

Í þessu samhengi er rétt að benda á að Kolbrún Halldórsdóttir var strikuð út á 3,56% atkvæða VG. Ekki sat hún nú undir neinum árásum eins og Björn og Jónína. Greinilegt að sumir þurfa lítið að hafa fyrir því að afla sér óvinsælda. 


mbl.is Rúmlega 2500 strikuðu yfir nafn Björns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Geir að draga seiminn á vinstri flokkunum?

Það er ekki laust við að manni finnist svolítil líkindi með stöðu mála nú og stöðunni árið 1995. Munurinn er þó sá að ef Sjálfstæðismenn ætla að slíta stjórninni eins og þá þá kemur það varla að ráðherrum Framsóknar að óvörum. Það læðist að mér sá grunur að Jón og Geir séu að láta vinstri flokkana engjast aðeins til að Sjálfstæðisflokkurinn eigi auðveldara með að semja við þá með afarkostum. Ekki síst eftir að möguleikanum á vinstri stjórn var sópað út af borðinu með tilboði VG um minnihlutastjórn. Ég hafði nú vonað að VG menn væru ekki alveg svona veruleikafirrtir eins og er að koma á daginn. Með þessu hafa þeir fleygt eina trompi vinstri flokkana fyrir borð því nú getur Sjálfstæðisflokkurinn deilt og drottnað að vild.

Ef Geir var með flest trompin á hendi á sunnudagsmorguninn þá hefur staða hans bara batnað við hina ótaktísku spilamennsku VG.


Varnarsigur hjá Samfylkingu og Framsókn?

Það var skondið að sjá viðbrögð ISG við kosningatölunum þar sem talað var fjálglega um varnarsigur  og  að  Jafnaðarmannaflokkur Íslands  væri enn við  góða  heilsu.  4,2% í tap  og 2 þingmenn  fyrir borð  er tap  hvernig  sem  á það er  litið. Ekki reyndi Jón Sigurðsson að lýsa sig sigurvegara kosningabaráttunnar þrátt fyrir að Framsókn hefði bætt við sig 4-5% á síðustu sex vikunum sem er hlutfallslega svipuð aukning og Samfylkingin fékk ef ekki meiri.

Það er alveg ljóst að nú þarf að láta undan síga , endurskipuleggja liðið og blása síðan til gagnsóknar. Að mínu mati er það fráleitt að halda áfram núverandi stjórnarsamstarfi eins og sakir standa. Mitt mat er að annaðhvort mynda Samfylking og Sjálfstæðisflokkur stjórn eða að mynduð verði vinstri stjórn með þátttöku Framsóknarflokksins. Sterkast fyrir Framsóknarmenn sem flokk væri stjórn S&D því eftir síðasta stjórnarsamstarf þeirra flokka fékk flokkurinn eina af sínum betri kosningum eða rúmlega 23%.

Eðlilegast væri í stöðunni að Framsóknarmenn héldu sig til hlés í stjórnarmyndunarviðræðum og kæmu einungis inní þær þegar allir aðrir kostir væru reyndir til þrautar. Flokkurinn mun að sjálfsögðu ekki bregðast þingræðislegum skyldum sínum að stuðla að myndun starfhæfrar ríkisstjórnar en fyrst held ég að eigi að leyfa öðrum að spreyta sig. 

Annars eru þetta mest spennandi kosningar síðan ég fór að fylgjast með af alvöru og alltaf eitthvað nýtt að gerast, stjórnin inni og úti og þar fram eftir götunum. Tímamismunurinn gerði það þó að verkum að ég lognaðist útaf um hálffimmleytið í nótt (2:30 GMT) með ríkisstjórnina inni og Framsókn með 7 þingmenn og Siv úti. Það voru því gleðitíðindi þegar konan vakti mig í morgun með það að Sammi frændi væri kominn inn og Siv orðin kjördæmakjörin og töldum við hjónin okkur að sjálfsögðu eiga hlut í því með utankjörstaðaratkvæðunum okkar. Það voru því síðan eilítil vonbrigði þegar Ragnheiður hirti af Samma sætið í síðustu tölum með 11 atkvæðum. 8 hefði litið betur út en 7 svona á pappírnum amk.    


Öskur á sporbaug!

Eitthvað virðist beyging orða vera að vefjast fyrir fréttaritara mbl. að þessu sinni. Nema ef það hafi verið upptaka af öskrum 200 manna sem sendar hafi verið í geimferð. Hefði ekki verið réttara að segja Ösku 200 manna sem skotið ... ? Annars er vonandi að askan finnist svo að menn komist í jörð. Ég hafði annars alltaf skilið þetta þannig að askan yrði á sporbaug að eilífu. Ætli það sé svosem á geimruslið bætandi þegar maður fer að hugsa þetta aðeins lengra. 
mbl.is Scotty týndur eftir geimferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannanir og fylgisflakk

Var að horfa á fréttir Stöðvar 2 áðan og sá "nýju" könnunina þeirra. Mér finnst það ótrúlega slakt hjá opinberri stofnun eins og Félagsvísindastofnun að láta taka sig í svona vinnubrögðum. Fyrst er valið úrtak uppá 2400 manns og náð í 64% þeirra á fimm daga tímabili. Vönduð vinnubrögð og eflaust sæmilega hægt að marka fylgið en kannski erfitt að spá í þróunina þegar notað er svona langt tímabil skömmu fyrir kjördag þegar fólk er óðum að gera upp hug sinn. 

Könnunin var hinsvegar svolítið flopp þegar hún kom síðan út í gærkvöldi, rétt á hæla könnunar frá Gallup þar sem Framsókn hafði tekið mikið stökk uppá við milli daga. Þetta stökk var afar lítið í könnun Félagsvísindastofnunar og því lyktaði könnunin svolítið af því að vera orðin úrelt fyrir birtingu. Auðvitað er það súrt í broti að vinna mikla og góða könnun þegar hún er síðan úrelt en viðbrögð Félagsvísindastofnunar eru auðvitað kolröng. Í stað þess að einbeita sér að því að vinna könnun morgundagsins betur er rokið í að bæta við úrtakið 300 manns og klippa fyrstu þrjá dagana af könnuninni í tilraun til að uppfæra könnunina. Það vita það nú flestir sem eitthvað hafa haft með tölfræði að gera að ef eitthvað á að vera að marka niðurstöðuna þá þýðir ekki að rugla í úrtaksmenginu eða breyta um aðferðafræði eftir að könnunin er hafin. Ef rétt er farið með þá er úrtakið 1700 manns af hverjum 300 eru frá í dag væntanlega en hinir 1200 frá mánudegi og þriðjudegi. 

Auðvitað þýðir þetta ekki endilega að það sé miklu meira að marka Gallup kannanirnar en þeir hafa þó allavega aðferðafræði sem þeir halda sig fast við og ætti því að gefa áreiðanlegri niðurstöður.

Gallup mælir Framsókn um helgina í 7,6% með 950 manna úrtaki og 62% svarhlutfalli, þar sem 80,9% nefndu flokk. Sunnudag til mánudags mælist fylgi Framsóknar 9,8% í 1150 manna úrtaki og 63,7% svarhlutfalli, þar af nefndu 86% flokk. Mánudag til þriðjudag mælist fylgið 14,6% í 1048 manna úrtaki og 64,1% svarhlutfall, þar af nefndu 86,6% flokk. Þriðjudag til miðvikudag mælist síðan fylgið 13,6% í 1097 manna úrtaki með 64,2% svarhlutfalli og þar af nefndu 89,5% flokk. 

Af þessu má ljóst vera að um leið og óákveðnum fækkaði þá jókst fylgi Framsóknar og reyndar líka Samfylkingarinnar. Sveiflan er því ekkert óeðlileg að því leyti. Það er löngu vitað að kjósendur Sjálfstæðisflokksins og VG eru flokkshollir og gefa óhikað upp afstöðu sína á meðan miðjuflokkarnir ná fyrst sínu fylgi skömmu fyrir kosningar. Fylgi D og V minnkar ekki tölulega séð í könnununum heldur hlutfallslega þegar fleiri taka afstöðu.

Nú verður mikill kannanadagur á morgun og nóg að spá og spekúlera í og allt virðist vera opið ennþá. Það verður spennandi að sjá hvort að mínir menn skríða upp fyrir 15% á morgun og ef ekki þá, þá amk. á laugardag, þegar loksins kemur könnun sem ekki þarf að véfengja eða spá í úrtökum.

Árangur áfram og ekkert stopp 


mbl.is Samfylking og Framsóknarflokkur bæta við sig samkvæmt könnun Stöðvar 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband