Varnarsigur hjá Samfylkingu og Framsókn?

Það var skondið að sjá viðbrögð ISG við kosningatölunum þar sem talað var fjálglega um varnarsigur  og  að  Jafnaðarmannaflokkur Íslands  væri enn við  góða  heilsu.  4,2% í tap  og 2 þingmenn  fyrir borð  er tap  hvernig  sem  á það er  litið. Ekki reyndi Jón Sigurðsson að lýsa sig sigurvegara kosningabaráttunnar þrátt fyrir að Framsókn hefði bætt við sig 4-5% á síðustu sex vikunum sem er hlutfallslega svipuð aukning og Samfylkingin fékk ef ekki meiri.

Það er alveg ljóst að nú þarf að láta undan síga , endurskipuleggja liðið og blása síðan til gagnsóknar. Að mínu mati er það fráleitt að halda áfram núverandi stjórnarsamstarfi eins og sakir standa. Mitt mat er að annaðhvort mynda Samfylking og Sjálfstæðisflokkur stjórn eða að mynduð verði vinstri stjórn með þátttöku Framsóknarflokksins. Sterkast fyrir Framsóknarmenn sem flokk væri stjórn S&D því eftir síðasta stjórnarsamstarf þeirra flokka fékk flokkurinn eina af sínum betri kosningum eða rúmlega 23%.

Eðlilegast væri í stöðunni að Framsóknarmenn héldu sig til hlés í stjórnarmyndunarviðræðum og kæmu einungis inní þær þegar allir aðrir kostir væru reyndir til þrautar. Flokkurinn mun að sjálfsögðu ekki bregðast þingræðislegum skyldum sínum að stuðla að myndun starfhæfrar ríkisstjórnar en fyrst held ég að eigi að leyfa öðrum að spreyta sig. 

Annars eru þetta mest spennandi kosningar síðan ég fór að fylgjast með af alvöru og alltaf eitthvað nýtt að gerast, stjórnin inni og úti og þar fram eftir götunum. Tímamismunurinn gerði það þó að verkum að ég lognaðist útaf um hálffimmleytið í nótt (2:30 GMT) með ríkisstjórnina inni og Framsókn með 7 þingmenn og Siv úti. Það voru því gleðitíðindi þegar konan vakti mig í morgun með það að Sammi frændi væri kominn inn og Siv orðin kjördæmakjörin og töldum við hjónin okkur að sjálfsögðu eiga hlut í því með utankjörstaðaratkvæðunum okkar. Það voru því síðan eilítil vonbrigði þegar Ragnheiður hirti af Samma sætið í síðustu tölum með 11 atkvæðum. 8 hefði litið betur út en 7 svona á pappírnum amk.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Jónsson

Það er hárrétt hjá þér að Framsóknarflokkurinn hefur ekkert umboð til að halda áfram í núverandi meirihlutasamstarfi.
Það er erfitt að ganga framhjá Sjálfstæðisflokknum við myndun meirihluta, því án hans verður ekki mynduð tveggja flokka stjórn, en tilfellið er að oft var þörf en nú er nauðsyn. Sjálfstæðismenn er búinn að vera við völd í 16 ár og allt of oft hafa tilburðir þeirra minnt meira á einræðisríki en lýðræðisríki. Það er skaðlegt fyrir lýðræðið að of mikil völd safnist á of fáar hendur í of langan tíma.

Stefán Jónsson, 15.5.2007 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband