Kommúnísk ritskoðun?

Mig langar endilega til að fá að vita hversvegna ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna létu undan kvörtunum við að Hagur Hafnarfjarðar tæki þátt í umræðum um málið. Hótuðu einhverjir aðrir að taka ekki þátt og þá hverjir? Óttuðust Sólarmenn að þetta yrði ekki sú einstefna þeirra og VG gagnvart fulltrúa Alcan eins og þeir höfðu vonast eftir? Ekki var að búast við að hinir flokkarnir myndu verja Álverið því þessa stundina þykir það ekki fínt að vera stuðningsmaður iðnaðar á Íslandi nema ef vera skyldi íslensks heimilisiðnaðar. Sjónarmið Alcans og Hags Hafnarfjarðar eru ekki þau sömu ef fólk var að óttast tvítekningu. Alcan vill jú hagkvæmari framleiðslu á meðan Hagur Hafnarfjarðar berst fyrir öflugu atvinnulífi í Hafnarfirði og aukinni hagsæld bæjarins. Þetta eru sjónarmið sem þurfa málsvara eins og önnur sjónarmið í málinu.

Skora hér með á forystumenn ungliðahreyfinga flokkanna að skýra nánar frá málavöxtum.


mbl.is Fulltrúum Hags í Hafnarfirði meinuð þátttaka á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað eigum við að kjósa í vor?

Málefnafátæktin virðist tröllríða þjóðfélaginu svo að maður er eitt stórt spurningamerki um hvað kosningarnar að þessu sinni munu snúast. VG stefnir eðlilega að því að keyra umhverfismálin áfram fram í rauðann dauðann sérstaklega þannig að fólk átti sig ekki á málefnafátæktinni hjá þeim á öðrum sviðum. Kosningarnar um stækkun álversins í Straumsvík eru náttúrulega guðsgjöf þeim til handa og það eina sem hefði komið sér betur fyrir VG hefði verið að þær hefðu fallið saman við alþingiskosningarnar. Frjálslyndir hafa reynt eftir fremsta megni að koma af stað múgæsingu gagnvart útlendingum en vopnin virðast hafa snúist í höndunum á þeim og múgæsingin hefur að mestu snúist gegn þeim sjálfum.

Samfylkingin, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa enn ekki sýnt sín spil í kosningabaráttunni. Samfylkingin virðist enn ekki hafa ákveðið sínar áherslur og er spennandi að sjá hvort að flokksþing breyti þar einhverju um. Kjósendur virðast eiga í erfiðleikum með að átta sig á hvert Samfylkingin stefnir og er það væntanlega ein af ástæðunum fyrir því að gengið í könnunum er ekki uppá það besta. Hinsvegar er aldrei að vita hvaða áhrif sterkt flokksþing getur haft á fylgið sérstaklega ef Samfylkingarmönnum tekst að finna baráttumál sem eiga einhvern hljómgrunn meðal kjósenda.

Framsóknarmenn héldu sitt flokksþing fyrir skömmu þar sem staða flokksins sem hófsamur miðjuflokkur var áréttuð. Spurningin er hvort að hófsemin sé styrkur flokksins eða veikleiki. Þjóðlindaákvæðið og fjaðrafokið í kringum það var varla ætlað sem kosningamál heldur hefur markmiðið væntanlega verið að standa við það sem lofað var og unnið hafði verið að í fjögur ár. Hefði verið synd að eyða fjórum til viðbótar til að koma því sama í gegn. Einnig er það að sjálfsögðu mikilvægt að árétta það fyrir kjósendum að Framsóknarflokkurinn er ekki með sömu áherslur og Sjálfstæðisflokkurinn þrátt fyrir að flokkunum hafa gengið sæmilega í að vinna saman.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til siglt lygnan sjó og ekki fylkt sér að baki neinum sérstökum málum. Það er svo sem ekkert nýtt enda flokkurinn áskrifandi að stórum hluta síns fylgis. Spurningin er hvort að flokkurinn sé að vakna enda formaðurinn búinn að lýsa stuðningi sínum við stækkun álvers í Straumsvík að ég held einn stjórnmálamanna til að gera slíkt. Einhver stefnumál hljóta að koma fram á flokksþinginu sem Sjálfstæðismenn hafa hugsað sér að keyra á og er spennandi að vita hver þau verða. Það verður skondið að sjá Sjálfstæðismenn og Samfylkinguna bítast um athygli fjölmiðlana og má ætla að einhver verði yfirboðin þá helgina.   

Ná Vinstri grænir að halda umhverfismálunum á lofti fram að kosningum, sérstaklega ef stækkun í Straumsvík verður samþykkt?

Ná Frjálslyndir að teygja lopann enn einu sinni með kvótakerfið og blanda þá umræðu með útlendingaáróðri?

Finnur Samfylkingin baráttumál sem endurheimtir hið tapaða fylgi frá VG? Verður það ef til vill Evran eða inganga í EB?

Ætla Framsóknarmenn að keyra á því að vera góðir í samstarfi eða að þeir séu eini valkosturinn á miðjunni?

Munu Sjálfstæðismenn finna sér kosningamál eða láta sér nægja að hamra á því að þeir séu á móti EB og hafi nánast einir og óstuddir staðið fyrir góðærinu svokallaða?

 Svör óskast hið fyrsta

 


Kúgildi kemur af fjalli

Það er nú ekki ónýtt að heimta fé af fjalli þó seint sé. Séu ærnar lembdar og af myndinni má ráða að þær eru vel loðnar þá er hér um að ræða fullgilt kúgildi eða jafnvirði 120 álna vaðmáls osfrv.
mbl.is Fé heimt af fjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins loksins

Loksins uppskera Argentínumenn laun erfiðisins. Gamla stigakerfið virtist vera gert með þeim ósköpum að Brasilíumenn væru áskrifandi að efsta sætinu hvað sem á gengi. Gott mál að nýja kerfið er farið að virka eins og það átti að gera ss. endurspegla stöðuna á hverjum tíma.

Vamos Argentina 


mbl.is Argentínumenn í 1. sæti á stigalista FIFA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir standa sig betur í umhverfisvernd Alcan eða VG?

Vegna þess hversu félagar í VG telja sig vera mikla málsvara umhverfisins þá langar mig til að benda á spaugilega staðreynd.

Milli áranna 2004 og 2005 minnkaði útblástur Alcan Inc. (Alcan móðurfélagsins) á CO2 vegna flutninga um 12,5% eða úr 1,6 milj. t. CO2 í 1,4. Ekki var tekið manntal á flokksþingi VG 2005 um hverjir hefðu notað aðra flutningsmáta en einkabifreið til þess að komast á flokksþingið en þar sem aðeins einn af 500 fulltrúum sem mættu á flokksþingið 2007 hafði notað aðra flutningsmáta en einkabílinn er einungis hægt að gera ráð fyrir 0,2% minni útblæstri af CO2 og CO auk annarra eiturefna frá útblæstri bifreiða frá fulltrúum á flokksþingi VG, að þeim forsendum gefnum að allir hafi notað einkabíl árið 2005. 

Það eru síðan þessir fulltrúar sem saka Alcan um að menga taumlaust. Hafa þeir efni á því? Hvernig væri að spyrja forkólfa þeirra um þessi mál. Meðlimir flokks sem ætlar að selja sig út á umhverfismál verður að sýna gott fordæmi í umhverfismálum. Þeir ættu kanski að taka Alcan sér til fyrirmyndar því þar er allavega framkvæmt í samræmi við fyrirheit. 

 

Hér er linkurinn á skýrslu Alcan fyrir 2006. Til að skoða umhverfismálin er hægt að smella á Performance Review og eftir það á annaðhvort Climate eða Environmental releases. http://www.publications.alcan.com/sustainability/2006/en/pages/index.html


Áróðursstríð sem undanfari alvöru stríðs???

Sem mikill áhugamaður um Spartverja er ég spenntur fyrir að sjá þessa mynd til að geta dæmt sjálfur um hvort að Hollywood sé að gera Írani að ófreskjum og mýkja þannig Bandaríkjamenn og umheiminn upp svo að hægt sé að gera innrás.

Ég hef kynnt mér þetta stríð og sögu þess sæmilega og á því erfitt með að ímynda mér hvernig hægt er að gera Persa að skrímslum í henni. Persar voru frægir fyrir að vera göfuglyndir sigurvegarar og leyfa sigruðum þjóðum að halda trú sinni og siðum svo lengi sem menn hlýddu Persakeisara.

Xerxes konungur Persa hafði þó eftir því sem sagan segir (sögð af grískum höfundum NB.) býsna stuttan þráð. Þegar her hans fór á flotbrúm yfir Hellusund gerði storm sem braut brúna. Lét Xerxes hýða sundið 300 vandarhöggum fyrir óleikinn. Síðar eftir bardagann við Laugaskörð lét hann setja höfuð Leonídasar konungs Spartverja á spjót en slíkt var einsdæmi af Persa hálfu sem vanalega meðhöndluðu lík fallinna andstæðinga af virðingu.

Að lokum brenndi Xerxes Akrópólishæð og þau hof sem stóðu þar og voru úr tré. Ruddi hann þar með brautina fyrir byggingaræði Períklesar sem byggði fleiri minnismerki um stjórnartíð sína á þeirri hæð en Davíð Oddsson í Reykjavík. Þessi tvenn hryðjuverk eru þau einu sem sagan segir að Persar hafi framið í Grikklandi og því verður eins og áður sagt gaman að sjá hvernig meðferð þetta hefur fengið í meðförum Hollywood sem ekki er beinlínis þekkt fyrir að fylgja sögulegum staðreyndum.

Fyrir þá sem vilja vita hvernig fór fyrir Persunum þá tóku þeir Aþenu eins og áður er sagt en biðu síðan ósigur fyrir flota Aþenumanna við Salamis um haustið 480 f.kr. Dró Xerxes þá sig til baka ásamt stórum hluta liðs síns en sá her sem eftir var beið síðan ósigur við Plataeu árið eftir þegar sameinaður her grísku borgríkjanna undir forystu Spartverja brytjaði 200.000 Persa niður á einum degi sem gerir þessa orrustu að þeirri blóðugustu í sögunni. Sagnfræðingar hafa þó tekið þessari tölu með varúð og slíkt hið sama ætla ég að gera við myndinni 300.


mbl.is Íranar gagnrýna bandaríska mynd um Persastríðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkja Ísraelsmenn Hamassamtökin????

Ísraelar eru væntanlega ekki sáttir við þessi málalok. Þetta eru nú samt skattar sem Palestínumenn greiða bara í gegnum Ísrael. Hef á tilfinningunni að þetta séu ekki endalok þessa máls.
mbl.is Sérsveitum Hamas greidd laun með skattfé frá Ísraelum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alcan og Kompásinn

Var að taka út Kompásþáttinn í sem sendur var í gærkvöldi. Miðað við það sem á undan er gengið var þetta framför hjá fréttamönnum Stöðvar 2. Hinsvegar má kanski setja út á efnistök þáttarins þar sem mesta púðrinu var eytt í að fjalla um starfsmannastefnu fyrirtækisins. Alcan hefur þá stefnu að starfsmenn sem sagt hefur verið upp þurfa ekki að vinna uppsagnarfrestinn öfugt við mörg önnur fyrirtæki. Þetta er í samræmi við kjarasamninga og því varla efni í að eyða nær hálfum þætti þegar hægt er að skoða það sem meira máli skiptir. Ekki var eytt neinum tíma í að kanna hvaða áhrif stækkun álversins og flutningur Alcans yfir í íslenskt skattkerfi hefur fyrir Hafnarfjörð. Þessi atriði ásamt umhverfis og atvinnumálunum er það sem þessar kosningar snúast um en ekki starfsmannastefna fyrirtækisins. 

Rannveig kom vel fyrir að vanda og svaraði skýrt og skorinort svörum fréttamanns sem og Ingi Rútsson. Fulltrúi Sólar í Straumi var meira að segja óvenju málefnalegur í sínum svörum enda þurfti hann að þessu sinni að standa fyrir sínu máli öfugt við áður.

Nú er vonandi að umræðan verði áfram á þessum nótunum þar sem fyrirsagnastílnum er sleppt og málefnin látin ráða.


Íranskt kjarnorkuver keyrir á rússnesku eldsneyti greiddu með bandaríkjadollurum

Þetta er nú meiri vitleysan. Ekki kanski skrítið að Íranir eigi ekki marga dollara til að greiða Rússunum eftir það sem á undan er gengið.


mbl.is Gangsetning kjarnorkustöðvar í Íran tefst vegna deilna við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnustefna eða stefnuleysi - VG og vistarbandið

Eftir að hafa horft á rifrildið í Silfri Egils milli Ögmundar og Hafliða ákvað ég að athuga hvað VG hefur fram að færa í atvinnumálum því þarna var gert klárt að VG vill ekki fleiri álbræðslur til Íslands, ekki það að hér séu neinar fyrir. Aðaláhersla þeirra virðist liggja í eftirfarandi sem tekið er beint úr stefnuskrá flokksins.

,,Við uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á iðnaður að skipa mikilvægt hlutverk, ekki síst ýmiss konar smáiðnaður og handverksiðnaður, auk starfa í verslun, hátækni og hugbúnaðargreinum og hvers konar þjónustu. Hlúa ber að litlum og meðalstórum einingum og vera á varðbergi gagnvart samþjöppun og fákeppni."

Frá sjónarhóli VG eru kostirnir því að snúa sér að prjónalesi og vaðmálsframleiðslu annarsvegar og smáiðnaði hinsvegar. Hvað ætli þeir meini síðan með smáiðnaði? Ég hef verið búsettur í Danmörku undanfarin 4 ár og stundað hér nám í framleiðslutæknifræði og meðfram því farið í heimsókn í fjölda fyrirtækja. Danskur iðnaður er trúlega með þeim blómlegri í Evrópu og Danirnir nokkuð naskir við að koma sér og sinni framleiðslu á framfæri. Samt sem áður er hér nánast aðeins um að ræða tvær tegundir fyrirtækja. 1. Stór fyrirtæki sem keppa á alþjóðlegum markaði 2. Lítil fyrirtæki sem sinna heimamarkaðinum (lesist stóru fyrirtækjunum) og Norður Evrópu. Venjan er sú að litlu fyrirtækin taka stökkið út á heimsmarkaðinn og verða stór eða fara á hausinn og því finnast ekki mörg fyrirtæki sem falla í milliklassann.

Stórfyrirtækin kaupa mikið af sinni þjónustu af litlu fyrirtækjunum sem hvert um sig eru of lítil til að geta staðið í útflutningi sjálf. Þetta nota þau svo í sinni hátæknivæddu framleiðslu sem að miklu leyti fer fram í al eða hálfsjálfvirkum verksmiðjum sem afhenda vörur sínar til viðskiptavina í Evrópu oft með 24 tíma fyrirvara og til landa utan Evrópu með stuttum afgreiðslutíma. Minni fyrirtækin eru háð þeim stóru að miklu leyti til að losna við sína framleiðslu þrátt fyrir að sum nái að stækka sinn markað þannig að hann nái yfir Norður Evrópu. Þau eru háð sömu skilmálum og stóru fyrirtækin þeas. þau hafa stuttan afhendingartíma. Þrátt fyrir það berjast flest þessara fyrirtækja í bökkum við að ná endum saman því framleiðslukostnaður á öðrum svæðum td. í Kína er svo lágur að mörg þau fyrirtæki sem ellegar hefðu keypt danska framleiðslu kaupa nú kínverska.

Með stóriðjustoppi sínu ætla Vinstri Grænir með einu höggi að þurrka út iðnað á Íslandi. Ísland nýtur ekki þeirrar góðu stöðu sem dönsku smáfyrirtækin búa við að hafa Norður Evrópu innan við 24 tíma vörubílsferð í burtu. Minnsti mögulegi afgreiðslufrestur frá Íslandi er 5-7 dagar og þá erum við bara að tala um flutningana. Með þessa samkeppnisstöðu eiga minni fyrirtækin litla möguleika á að flytja vörur sínar til Evrópu í samkeppni við kínverska framleiðslu. Ekki er um mörg stór iðnfyrirtæki að ræða á Íslandi sem markað og langflest þeirra tengjast annaðhvort stóriðju og orkuverum eða þá fiskiðnaðinum. Það er því augljóst að með því að stöðva uppbyggingu orkufreks iðnaðar er jafnframt verið að stöðva uppbyggingu smáiðnaðar og án smáiðnaðar verða ekki til neinir sprotar sem geta vaxið og dafnað og að lokum orðið stór. Það er alveg ljóst að VG hefur ekki áttað sig á hvað það er sem Ísland hefur að bjóða uppá. Ísland hefur ódýra endurnýjanlega orku sem hægt er að nota til að byggja upp orkufrekann iðnað sem síðar meir getur hjálpað til að koma smáiðnaði á koppinn með því að vera sá heimamarkaður sem slík fyrirtæki þurfa til að slíta barnsskónum.

Hvað stendur þá eftir af fyrirheitum VG? Prjónlesframleiðsla í baðstofum með túrista sem áhorfendur og viðskiptavini?  Spurning hversu margir eru spenntir fyrir slíkri framtíð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband