Áróðursstríð sem undanfari alvöru stríðs???

Sem mikill áhugamaður um Spartverja er ég spenntur fyrir að sjá þessa mynd til að geta dæmt sjálfur um hvort að Hollywood sé að gera Írani að ófreskjum og mýkja þannig Bandaríkjamenn og umheiminn upp svo að hægt sé að gera innrás.

Ég hef kynnt mér þetta stríð og sögu þess sæmilega og á því erfitt með að ímynda mér hvernig hægt er að gera Persa að skrímslum í henni. Persar voru frægir fyrir að vera göfuglyndir sigurvegarar og leyfa sigruðum þjóðum að halda trú sinni og siðum svo lengi sem menn hlýddu Persakeisara.

Xerxes konungur Persa hafði þó eftir því sem sagan segir (sögð af grískum höfundum NB.) býsna stuttan þráð. Þegar her hans fór á flotbrúm yfir Hellusund gerði storm sem braut brúna. Lét Xerxes hýða sundið 300 vandarhöggum fyrir óleikinn. Síðar eftir bardagann við Laugaskörð lét hann setja höfuð Leonídasar konungs Spartverja á spjót en slíkt var einsdæmi af Persa hálfu sem vanalega meðhöndluðu lík fallinna andstæðinga af virðingu.

Að lokum brenndi Xerxes Akrópólishæð og þau hof sem stóðu þar og voru úr tré. Ruddi hann þar með brautina fyrir byggingaræði Períklesar sem byggði fleiri minnismerki um stjórnartíð sína á þeirri hæð en Davíð Oddsson í Reykjavík. Þessi tvenn hryðjuverk eru þau einu sem sagan segir að Persar hafi framið í Grikklandi og því verður eins og áður sagt gaman að sjá hvernig meðferð þetta hefur fengið í meðförum Hollywood sem ekki er beinlínis þekkt fyrir að fylgja sögulegum staðreyndum.

Fyrir þá sem vilja vita hvernig fór fyrir Persunum þá tóku þeir Aþenu eins og áður er sagt en biðu síðan ósigur fyrir flota Aþenumanna við Salamis um haustið 480 f.kr. Dró Xerxes þá sig til baka ásamt stórum hluta liðs síns en sá her sem eftir var beið síðan ósigur við Plataeu árið eftir þegar sameinaður her grísku borgríkjanna undir forystu Spartverja brytjaði 200.000 Persa niður á einum degi sem gerir þessa orrustu að þeirri blóðugustu í sögunni. Sagnfræðingar hafa þó tekið þessari tölu með varúð og slíkt hið sama ætla ég að gera við myndinni 300.


mbl.is Íranar gagnrýna bandaríska mynd um Persastríðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Óli Bjarnason

Það skal tekið fram að myndin er gerð eftir teiknimyndasögu sem kom fyrst út fyrir 9 árum síðan. Sagan sú er skáldsaga fyrst og fremst, og er ekki verið að eltast við sögulegar staðreyndir til annars en að setja upp sögusviðið.

Það kemur seint á óvart að stjórnvöldum í Íran sé illa við sögur af fræknum Grikkjum, enda orð sem þeir nota gjarnan opinberlega yfir grísk-rómverska menningu einnig notuð yfir djöfulinn sjálfan.

Hitt er spurning, hvernig Írönsk stjórnvöld komust yfir myndina, því hún er ekki enn komin út í miðausturlöndum.

Rúnar Óli Bjarnason, 13.3.2007 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband