Málefnaleg umræða um stækkun Alcan í Straumsvík

Varð það á að blaða í gegnum Moggann nú í morgun. Þar kenndi að venju ýmissa grasa eins og venja er á sunnudegi. Meðal annars var þar að finna góða og málefnalega grein eftir Gísla G. Auðunnsson um stækkun Alcan í Straumsvík. Einnig var þar að finna aðra og heldur óskemmtilegri grein frá Margrétu Kristinsdóttur sem titlar sig fyrrverandi Samfylkingarkonu og skýtur föstum skotum á sína menn í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Það var hinsvegar ekki það sem fór mest fyrir brjóstið á mér, enda ekki innanbúðarmaður í Samfylkingunni í Hafnarfirði, heldur þau ómaklegu ummæli sem Margrét hefur uppi um samtökin Hagur Hafnarfjarðar. Svo að ég vitni beint í Margréti þá sagði hún orðrétt:

,,Samtök sem nefna sig „Hagur Hafnarfjarðar" fara mikinn um þessar mundir og þar er eytt milljónum króna í auglýsingaherferðir þar sem Hafnfirðingar eru hvattir til að kjósa á þann veg að hið óhugnanlega álver fái að breiða úr sér eins og skrímsli um allan Hafnarfjörð - annars missi starfsmenn álversins vinnuna sína."

Nú veit ég ekki af hverju Margréti finnst álverið svona óhugnanlegt en hitt veit ég að samtökin Hagur Hafnarfjarðar eru grasrótarsamtök fólks sem annaðhvort tengist Alcan gegnum vinnu sína eða telur hag Hafnarfjarðar best tryggðan með áframhaldandi starfrækslu álversins og stækkun þess. Þar eru engar miljónir til reiðu heldur einungis það fé sem komið hefur frá Hafnarfjarðarbæ og hefur einnig farið til Sólar í Straumi.

     Margrét heldur áfram á þessum nótum með órökstuddar dylgjur þar sem hún heldur því fram að sama ,,eitrið" komi frá álverinu og öllum bílaflota landsmanna. Þetta er að sjálfsögðu ekki rétt nema hún haldi því fram að CO2 sé eitur og útblæstri þess verði að hætta. Margrét þarf þá væntanlega að halda niðri í sér andanum til að takmarka eigin útblástur af þessu eitri.

Því miður virðist umræðan vera að færast á þessar nótur eftir því sem andstæðingum stækkunarinnar verður ljóst að þeir sem styðja stækkunina eru að eflast. Það er ódýrt að skreyta eigin málstað með óhróðri og órökstuddum dylgjum og þeirra Hafnfirðinga vegna sem enn hafa ekki myndað sér skoðun ættu allir aðilar að vanda sinn málflutning og ekki missa sig í tilfinningahitanum og fleygja fram orðum eins og óhugnanlegt og skrímsli. Hvað myndi Margréti finnast ef einhver segði það sama um hennar vinnustað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband