5.10.2007 | 20:29
Hvar eru mótvægisaðgerðirnar fyrir litlu sjávarbyggðirnar????
Þessa vikuna hafa fregnir frá Bakkafirði verið mikið í fréttum enda er ástandið þar hræðilegt og eins og heyra mátti í kvöldfréttum verða íbúarnir væntanlega settir í mótvægisaðgerðir við að mála rafmagnsskúr staðarins. Bakkfirðingar verða ekki eina fréttaefni haustsins og vetrarins ef að líkum lætur. Fjölmargir staðir eru út um land með 100-200 íbúa sem byggja sína afkomu að langstærstum hluta á fiskveiðum á litlum bátum og úrvinnslu þess afla sem þeir bera að landi. Þessir staðir standa frammi fyrir því að tekjur samfélagsins dragast saman um 33% í einu vetfangi. Einhver yrðu nú kveinin ef bankamenn þyrftu að taka á sig viðlíka launaskerðingu. Litlu bátarnir sem staðið hafa undir þessum byggðum og landvinnslu þar hafa árum saman verið lagðir í einelti af sægreifunum og stjórnvöldum og má telja líklegt að skerðingin sem nú er staðreynd muni ríða mörgum að fullu.
Fyrir ekki svo mörgum árum voru hafnir þessara sjávarplássa fullar af lífi enda fjöldi báta sem dró afla að landi eftir sóknardagakerfinu. Menn uppskáru eftir því sem þeir lögðu í fyrirtækið. Þetta gátu kvótagreifarnir ekki sætt sig við og hafa með stuðningi leppa sinna í sjávarútvegsráðuneytinu markvisst stefnt að því að útrýma þessari tegund sjósóknar. Dögunum fækkaði jafnt og þétt og nú síðast var skellt á kvóta sem síðan er skertur. Byggðakvóti var síðan settur á til að þagga niður í hæstu óánægjuröddunum og hefur fátt verið meiri þyrnir í augum LÍÚ. Ef LÍÚ fengi að ráða yrði allur kvótinn auðvitað veiddur á ca. fjórum skipum og landað í Reykjavík til að ná hámarkshagræðingu. Málið er auðvitað bara það að ef Ísland á að haldast í byggð meira en á Akureyri og Reyðarfirði þá er það klárt mál að ákveðinn hluti kvótans þarf að vera eyrnamerktur litlu sjávarbyggðunum. Prinsippið er það sama og í landbúnaðinum. Það er eflaust hægt að reka hann með því að hafa 20 stór verksmiðjufjárbú og 20 verksmiðjukúabú en er það það sem við viljum?
Mín skoðun er sú að á meðan fólk er tilbúið til að búa í hinum dreifðu byggðum á að gera því það kleift. Ekki að beita þeim aðferðum sem núverandi ríkisstjórn boðar þar sem fagurgala mótvægisaðgerða er veifað með vinstri hendinni á meðan hægri höndin er geymd fyrir aftan bak haldandi á rýtingi flutningsbótanna.
Mótvægisaðgerðirnar munu missa marks af þeirri einföldu ástæðu að þær eru soðnar saman af mönnum sem virðast ekki vera í neinum tengslum við raunveruleikann. Litlu útgerðirnar þola enga skerðingu því að sjávarplássin eru einfaldlega of lítil til að þola hana, jafnvel tímabundið. Stóru útgerðirnar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri geta mun betur þolað tímabundinn samdrátt enda getur starfsfólk landvinnslunnar á þessum stöðum fengið aðra vinnu og þeir einu sem missa spón úr aski eru sægreifarnir sem ættu nú að geta þolað harðindin. Þessar útgerðir ættu því að bera skerðinguna en ekki litlu útgerðirnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvaða mótvægisaðgerðir? Ég get ekki betur séð en að allt þetta "hjal" ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir sé að mestu leiti blekking.
Jóhann Elíasson, 6.10.2007 kl. 11:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.