Aukin skilvirkni á Alþingi og í ríkisbákninu

Nú þegar stjórnmálaflokkarnir keppast hver um annan þverann að lofa kjósendum gulli og grænum skógum gæti maður farið að halda að það væru digrir sjóðir í felum í kjallara stjórnarráðsins. Það sem enginn virðist hinsvegar sjá er að í stjórnkerfinu liggja gríðarleg verðmæti þar sem hægt er að finna ómældar fjárhæðir í ónýttum afköstum. Framleiðslu og afgreiðsluferli ríkisstofnana eru klassísk dæmi um ferla þar sem sóun á tíma og peningum fer fram. Í Danmörku hafa fjölmörg fyrirtæki og stofnanir, þar á meðal spítalar, tekið upp aðferðir japanskra bílframleiðenda í rekstri sínum með undraverðum árangri. Á spítölunum hafa biðlistar styst og afköst stóraukist án aukins kostnaðar eða fleira starfsfólks, danska póstþjónustan hefur orðið skilvirkari og afkastameiri og fjölmörg fyrirtæki hafa náð fram gríðarlegri hagræðingu í sínum rekstri.

Þessum tækjum væri hægt að beita á Alþingi Íslendinga með góðum árangri. Mér eins og mörgum fleiri blöskrar skipulagsleysið á þessari háttvirtu löggjafarsamkundu sem stundar þann leiða sið að reyna að bjarga því sem bjargað verður og afgreiða stórann hluta af sinni vinnu á síðustu dögum hvers þings. Slíkt leiðir auðvitað til hroðvirkni og veldur mistökum þar sem þau mega síst gerast, í lagaumhverfi okkar Íslendinga. Með strangari skipulagningu og skarpari fundarstjórn þar sem lögð væri áhersla á gæði en ekki magn í ræðuhöldum væri hægt að nýta tíma þingmanna mun betur og skilvirkar og einbeita þingsstörfum að því að gera það sem þarf þeas setja lög og það vel unnin lög.

Hjá bílframleiðandanum Toyota er nýr bíll til dæmis hannaður undir stjórn leiðtoga sem kallast Shusa. Leiðtoginn ber ábyrgð á verkefninu frá upphafi til enda og kallar til þá sérfræðiþekkingu sem þörf er á til að verkefnið eigi sem besta möguleika á að heppnast. Á Alþingi gæti hvert lagafrumvarp því fengið útdeilt leiðtoga td. lögfræðing sem myndi síðan stýra öllu starfi sem tengist frumvarpinu. Þetta myndi gilda jafnt um stjórnarfrumvörp og stjórnarandstöðufrumvörp, ótengt ráðuneytum. Hann myndi síðan kalla til alla nauðsynlega sérfræðiaðstoð til að gera frumvarpið sem best úr garði og frumvarpið myndi síðan koma til fyrstu umræðu á þinginu, á því yrðu gerðar nauðsylegar endurbætur ef þörf væri á og síðan greitt atkvæði eftir aðra umræðu. Það að senda hvert frumvarp í gegnum þrjár umræður á alþingi er óþarfi ef allir sem að málinu koma hafa unnið sína vinnu og það að leggja málið í þingnefndir skipaðar þingmönnum, oft með takmarkaða þekkingu á málefninu, er einnig tímasóun. Þingmennirnir gætu heldur nýtt sér tímann sem færi annars í nefndastörf til að lesa frumvörpin gaumgæfilega og koma með sínar athugasemdir þegar frumvarpið kemur til umræðu.

Ofangreindar aðgerðir gætu aukið afköst þingsins um helming og leitt til þess að þingið muni afgreiða betur unnin lög sem fleiri þingmenn hefðu haft tíma til að kynna sér niður í kjölinn. Alþingi yrði með þessu einskonar framkvæmdastjórn sem tæki ákvarðanir í stað þess að eyða tíma og peningum skattborgaranna í að setja illa unnin lög sem seinna þarf að eyða tíma í að breyta og endurbæta. Sömu lögmál eiga við í heilbrigðiskerfinu og í félagsþjónustunni og almennt í öllum rekstri. Mikið er talað um skort á þjónustu og skort á starfsfólki en málið er að í bæði félagsþjónustunni og í heilbrigðiskerfinu liggja auka afköst grafin sem hægt er að fá fram með litlum tilkostnaði og með því bæta þjónustu og auka afköst.

Látum þingheim setja gott fordæmi og auka sína skilvirkni því við eigum heimtingu á að þingmenn vinni sína vinnu almennilega.

Aukna framleiðni á Alþingi!   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Alveg hægt að taka undir það held ég.

Ragnar Bjarnason, 12.4.2007 kl. 20:44

2 Smámynd: Jón Gestur Guðmundsson

Eitt af því sem ríkisvaldið mætti breyta er öll þessi skriffinnska. Skriffinnskan er að kosta okkur Íslendinga stórfé. Mesti hluti skattfés fer í þessa skriffinnsku í stað spítala og fleira sem dæmi.

Því var haldið fram við mig um daginn að skriffinnskan í kringum tollalög okkar Íslendinga færri svo stór um sig og dýr, að ríkið myndi ekki tapa krónu ef það einfaldlega legði niður alla tolla.

Jón Gestur Guðmundsson, 13.4.2007 kl. 10:53

3 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Með því að umbylta tollkerfinu og endurbæta verkferlana væri hægt að minnka skriffinskuna milli 50 og 90% og afgreiðslutímann verulega. Með því mætti gera tollakerfið skilvirkara, ódýrara og hraðvirkara. Sú fullyrðing að báknið í kringum tollkerfið sé dýrt er ég ekki hissa á því það er auðséð að ríkið er ekki að fá það út úr tollakerfinu sem það skyldi. Skriffinskan er það sem mun ganga af okkur dauðum ef ekki er hægt að ná tökum á henni. Fólk myndi ekki trúa því hvað það kostar í raun að flytja pappír milli skrifborða.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 13.4.2007 kl. 11:00

4 Smámynd: Jón Einar Sverrisson

Það er óhætt að segja að þessi hugmynd sé áhugaverð, en veistu um einhver dæmi um að þetta hafi verið gert á öðrum þjóðþingum? Dettur þér í hug einhverjir ókostir við þetta fyrirkomulag eða ógnun við lýðræðisleg vinnubrögð á Alþingi? 

Ég er fylgjandi hagræðingu í stjórnsýslunni og fagna frumvarpi sem hefur verið flutt á þremur þingum af þingmönnum Samfylkingar um samkomudags Alþings og starfstíma þess, en ekki fengist afgreitt af ríkisstjórnarflokkunum. Nánari upplýsingar um frumvarpið er að finna hér: http://www.althingi.is/altext/133/s/0800.html

Jón Einar Sverrisson, 14.4.2007 kl. 00:07

5 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Þetta hefur ekki verið gert með beinum hætti að ég best veit neinsstaðar. Ókostirnir væru helst þeir að þingmönnum fyndist þeirra hlutverk skerðast og þá sérstaklega þeim sem finnst gaman að standa lengi í ræðustól.

Lýðræðisleg vinnubrögð ættu ekki að skerðast þar sem það væri Alþingi sem ætti alltaf lokavaldið um að samþykkja eða hafna lagafrumvörpum. Það gefur auga leið að frumvörp sem væru unnin á þennan hátt væru betur úr garði gerð en núverandi frumvörp og gætu farið í gegnum kerfið á kanski þriðjungi þess tíma sem það tekur nú. Það að frumvörp yrðu unnin á sama hátt hvort sem að þau kæmu frá stjórn eða stjórnarandstöðu gæti líka bætt úr þeim stimpli sem þau eiga það til að fá ss. að vera frá ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin á að sjálfsögðu ekki einkarétt á því að fá góðar hugmyndir í 4 ár.

Frumvarp Samfylkingarinnar er góðra gjalda vert en leysir ekki vandann í raun. Það sem myndi gerast er jú að eitthvað fleiri mál kæmust í gegn en það yrði alltaf sama uppsöfnunin af frumvörpum í vinnslu sem ætti síðan að samþykkja á lokasprettinum. Það þarf því að ganga mun lengra. 

Guðmundur Ragnar Björnsson, 14.4.2007 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband