11.3.2007 | 19:22
Atvinnustefna eða stefnuleysi - VG og vistarbandið
Eftir að hafa horft á rifrildið í Silfri Egils milli Ögmundar og Hafliða ákvað ég að athuga hvað VG hefur fram að færa í atvinnumálum því þarna var gert klárt að VG vill ekki fleiri álbræðslur til Íslands, ekki það að hér séu neinar fyrir. Aðaláhersla þeirra virðist liggja í eftirfarandi sem tekið er beint úr stefnuskrá flokksins.
,,Við uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á iðnaður að skipa mikilvægt hlutverk, ekki síst ýmiss konar smáiðnaður og handverksiðnaður, auk starfa í verslun, hátækni og hugbúnaðargreinum og hvers konar þjónustu. Hlúa ber að litlum og meðalstórum einingum og vera á varðbergi gagnvart samþjöppun og fákeppni."
Frá sjónarhóli VG eru kostirnir því að snúa sér að prjónalesi og vaðmálsframleiðslu annarsvegar og smáiðnaði hinsvegar. Hvað ætli þeir meini síðan með smáiðnaði? Ég hef verið búsettur í Danmörku undanfarin 4 ár og stundað hér nám í framleiðslutæknifræði og meðfram því farið í heimsókn í fjölda fyrirtækja. Danskur iðnaður er trúlega með þeim blómlegri í Evrópu og Danirnir nokkuð naskir við að koma sér og sinni framleiðslu á framfæri. Samt sem áður er hér nánast aðeins um að ræða tvær tegundir fyrirtækja. 1. Stór fyrirtæki sem keppa á alþjóðlegum markaði 2. Lítil fyrirtæki sem sinna heimamarkaðinum (lesist stóru fyrirtækjunum) og Norður Evrópu. Venjan er sú að litlu fyrirtækin taka stökkið út á heimsmarkaðinn og verða stór eða fara á hausinn og því finnast ekki mörg fyrirtæki sem falla í milliklassann.
Stórfyrirtækin kaupa mikið af sinni þjónustu af litlu fyrirtækjunum sem hvert um sig eru of lítil til að geta staðið í útflutningi sjálf. Þetta nota þau svo í sinni hátæknivæddu framleiðslu sem að miklu leyti fer fram í al eða hálfsjálfvirkum verksmiðjum sem afhenda vörur sínar til viðskiptavina í Evrópu oft með 24 tíma fyrirvara og til landa utan Evrópu með stuttum afgreiðslutíma. Minni fyrirtækin eru háð þeim stóru að miklu leyti til að losna við sína framleiðslu þrátt fyrir að sum nái að stækka sinn markað þannig að hann nái yfir Norður Evrópu. Þau eru háð sömu skilmálum og stóru fyrirtækin þeas. þau hafa stuttan afhendingartíma. Þrátt fyrir það berjast flest þessara fyrirtækja í bökkum við að ná endum saman því framleiðslukostnaður á öðrum svæðum td. í Kína er svo lágur að mörg þau fyrirtæki sem ellegar hefðu keypt danska framleiðslu kaupa nú kínverska.
Með stóriðjustoppi sínu ætla Vinstri Grænir með einu höggi að þurrka út iðnað á Íslandi. Ísland nýtur ekki þeirrar góðu stöðu sem dönsku smáfyrirtækin búa við að hafa Norður Evrópu innan við 24 tíma vörubílsferð í burtu. Minnsti mögulegi afgreiðslufrestur frá Íslandi er 5-7 dagar og þá erum við bara að tala um flutningana. Með þessa samkeppnisstöðu eiga minni fyrirtækin litla möguleika á að flytja vörur sínar til Evrópu í samkeppni við kínverska framleiðslu. Ekki er um mörg stór iðnfyrirtæki að ræða á Íslandi sem markað og langflest þeirra tengjast annaðhvort stóriðju og orkuverum eða þá fiskiðnaðinum. Það er því augljóst að með því að stöðva uppbyggingu orkufreks iðnaðar er jafnframt verið að stöðva uppbyggingu smáiðnaðar og án smáiðnaðar verða ekki til neinir sprotar sem geta vaxið og dafnað og að lokum orðið stór. Það er alveg ljóst að VG hefur ekki áttað sig á hvað það er sem Ísland hefur að bjóða uppá. Ísland hefur ódýra endurnýjanlega orku sem hægt er að nota til að byggja upp orkufrekann iðnað sem síðar meir getur hjálpað til að koma smáiðnaði á koppinn með því að vera sá heimamarkaður sem slík fyrirtæki þurfa til að slíta barnsskónum.
Hvað stendur þá eftir af fyrirheitum VG? Prjónlesframleiðsla í baðstofum með túrista sem áhorfendur og viðskiptavini? Spurning hversu margir eru spenntir fyrir slíkri framtíð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég fékk upplýsingar um daginn hvað þetta "eitthvað annað" er hjá VG. Þuríður var á fundi í ME og var spurð hvað það væri og eftir einhverjar vöfflur hjá henni þá var hún beðin að nefna eitt atriði. Það sem hún sagði var "það er hægt að opna bakarí".
Ég vissi ekki hvort ég ætti að skrifa þetta satt best að segja, þetta er eitthvað svo afkáralegt. Ég yrði líklega dæmdur sem ómálefnalegur.
Annars var Hafliði ágætur, fékk meðal annars Samfylkinguna til að segja að þeir ætli að stoppa álversframkvæmdir á Bakka.
Ragnar Bjarnason, 11.3.2007 kl. 21:17
Afsakið, VG átti þetta að vera.
Ragnar Bjarnason, 11.3.2007 kl. 21:28
Já og SF
Ragnar Bjarnason, 11.3.2007 kl. 21:34
Það hefur verið lengi vitað að ef VG kæmist til valda myndu þeir útiloka allan útflutning, vegna samkeppnishæfni eins og þú nefnir í blogginu, og þau myndu hækka vöruverð á Íslandi vegna óhagræðingar í smæðinni á fyrirtækjunum.
Ekki nóg með það, þau virðast helst vilja byggja á þjónustu þó að allir viti að undirstaða hvers samfélags er veðrmætasköpunin.
Ágúst Dalkvist, 11.3.2007 kl. 23:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.