Þrek og tár í dönsku utandeildinni

Nú er kominn sá tími að Ísafoldarmenn skríða úr híði sínu og taka fram sparkskóna á nýjann leik. Einir níu drengir mættu á aðra æfingu þessa tímabils og var greinilegt að langt er í að menn komist í fullt form á ný. Snerpa og úthald var í algeru lágmarki en ,,léttleikandi" spil var þó í fyrirrúmi og mörkin komu ótt og títt enda menn ósjaldan gripnir strandaðir í sókninni án krafta til að hlaupa til baka. Nú er bara að byggja á þessu og vera klárir í fyrsta leikinn í byrjun apríl. Þeir sem vilja fræðast meira um liðið geta smellt hér.

Spindoktorar samfylkingarinnar

Síðustu vikur hafa eflaust verið erfiðar fyrir stuðningsmenn samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Á meðan Lúðvík og félagar reyna að koma fram sem hlynntir eða hlutlausir gagnvart stækkun í Straumsvík lýsir hver samfylkingarmaðurinnaf öðrum utan Hafnarfjarðar  yfir andstöðu sinni við framkvæmdirnar. Sama á við um formanninn sem sagði í upphafi að Hafnfirðingar væru fullfærir um að ráða fram úr þessu máli sjálfir en snýr gersamlega við blaðinu 10 dögum síðar og lýsir yfir andstöðu sinni.

Af þessu má ráða að samfylkingin er komin í kosningaham. Ekki er ásættanlegt að tapa fleiri atkvæðum til VG og því er umhverfistrompinu spilað en á sama tíma má ekki ganga of hart fram gegn Hafnfirskum krötum. Samfylkingunni tekst því á einhvern hátt að vera bæði fylgjandi og á móti. Þetta minnir mann helst á Braveheart þegar Robert Bruce og faðir hans bæði studdu uppreisn W.W. og unnu gegn henni.

Greinilegt að í báðum tilfellum eru miklir klækjarefir að störfum.


Er tími vinstri stjórnar kominn????

Undanfarið hefur hver könnunin af annari sýnt mjög misvísandi niðurstöður og hlutfall óákveðinna hefur verið nærri helmingur hverja könnunina á fætur annari. Hverju skyldi sú óákveðni sæta? Það virðist augljóst að almenningur virðist ekki hafa löngun til að D og B myndi saman stjórn á ný og að venju kemur það niður á B-lista í könnunum. Óákveðnin bendir þó til þess að fólk eigi erfitt með að finna valkost sem það sættir sig við.

Frjálslyndir virðast hafa spilað rassinn úr buxunum með því að tapa Margréti og halda til streitu sínu þjóðernisútspili sem ég held að flestir sjái í gegnum hvað það er í raun og veru sem er útlendingahatur.  Ný möguleg ríkisstjórnarmynstur eru því líklega D-VG, D-S, S-VG og S-VG-B.    

Af þessum mynstrum væri mest spennandi að sjá D og VG koma saman. Það væri amk. gaman að vera fluga á vegg á ríkisstjórnarfundum þegar Geir og Steingrímur reyna að koma sér saman um eitthvað. Ætli það færi ekki á þennan veginn, Geir: Ég legg til ... (gripið fram í) Steingrímur: Nei, ég er á móti því.

D og S er kostur sem gæti gengið upp en spurningin er hvort flokkarnir geti sæst á um forsætisráðherra og hvort að sjálfstæðismenn geti yfirunnið óvild sína í garð Ingibjargar S. Þetta mynstur gæti gengið en hefur ákveðin vandamál sem þarf að leysa.

 S og VG er fyrirfram ekki ómögulegt fyrir utan það að ég amk. á erfitt með að ímynda mér að flokkarnir nái meirihluta saman. Minnihlutastjórn með stuðningi F-lista á la Danmörk held ég að menn geti ekki sætt sig við sem lausn. Síðan er það hvort Solla og Steingrímur geti einfaldlega unnið saman í lengri tíma, hver veit. 

Þá er það síðasti kosturinn sem er sá kostur sem oftast hefur verið sá raunhæfasti en það er hin klassíska vinstri stjórn með VG-S og B. Þess háttar samstarf hefur í fortíðinni reynt á þolrif flokkanna en oftast skilað góðu starfi og þarf ekki að fara lengra aftur en til stjórnarinnar 1988-1991 þegar þjóðarsáttin var gerð og verðbólgan stöðvuð til að finna dæmi um þetta. Það sem þetta stjórnarmynstur hefur fram yfir að vinstri flokkarnir standi einir er að B listamenn hafa löngum verið duglegir við að hella olíu á öldurnar þegar ólgað hefur á milli vinstri flokkanna og þar með haldið samstarfinu gangandi gegnum þykkt og þunnt. Að mínu mati væri þetta stjórnarsamstarf það sem þjóðinni væri fyrir bestu því óneitanlega er fólk orðið þreytt á því að hafa sjálfstæðismenn í stjórn enda komin 16 ár.

Nú er bara að sjá hvort að fólk fari að ná frekari áttum þegar nær dregur kosningurm og kannanir fari að verða marktækar. Einnig ætti það að skýrast hvort B-lista menn ætli að hanga áfram í frakkalöfum D-listans eða stinga sína eigin stefnu og opna möguleika á samstarfi til vinstri. Í undanförnum könnunum hefur fólkið sýnt að ef B-listi heldur áfram á sömu braut endar það bara á ein veg, með afhroði í kosningum.


Hringavitleysa

það er ekki að spyrja að því að suðurnesjamenn hleypa fjöri í pólitíkina. Rámar eitthvað í að frægasti flokkaflakkarinn sé trúlega Winston gamli Churchill sem hoppaði frá íhaldinu yfir í frjálslynda og síðan til baka aftur (þess má geta að flokkaflakk á breska þinginu er ólíkt dramatískara en hér á landi). Hann sagði sjálfur að hvaða allir geti skipt um flokk en aðeins snillingar geti skipt til baka. Nú er spurningin hvort að Gunnar sé sá snillingur að geta skipt aftur yfir í frjálslynda.


mbl.is Óháður inn fyrir sjálfstæðismann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsemin hlýtur að ráða að lokum

Í dag hefst utankjörfundaratkvæðagreiðsla um stækkun álversins í Straumsvík. Ekki hefur skort á umræðu um málið og verst þykir mér að þeir Hafnfirðingar sem ekki höfðu kynnt sér málið eða myndað sér skoðun á því áður en umræðurnar fóru í gang hafa orðið að þola ómálefnalegann málflutning af hendi Sólar í Straumi. Þessi handbendi VG hafa tekið upp þann leiða ávana flokksins um að vera á móti öllu og málflutningur þeirra hefur verið uppfullur af rangfærslum og gæti almenningur af þeim dregið þá ályktun að í Straumsvík séu starfsmenn sendir í geislameðferð við krabbameini eftir 10 ára starf og að þykkt mengunarský hvíli yfir verksmiðjunni. 

Ég hef starfað í verksmiðjunni í Straumsvík fyrst sem fastur starfsmaður og síðar sem sumarstarfsmaður og hef aldrei séð neitt sem ekki hefur verið til fyrirmyndar í umhverfis og mengunarmálum. Fyrirtækið er ljósárum á undan öðrum fyrirtækjum á Íslandi á því sviði. Sérstaklega svíður mér þegar talað er um sjónmengun af álverinu. Verksmiðjusvæðið er afar snyrtilegt og mikil alúð lögð í að halda því í góðu standi. Hinsvegar blöskrar manni þegar litið er upp fyrir Reykjanesbrautina á þau fyrirtæki sem þar eru og eru hin virkilega sjónmengun. Það skal þó tekið fram að frá því eru undantekningar eins og prentsmiðjan.

Það er því von mín að Hafnfirðingar láti ekki blekkjast af orðagjálfri VG og handbenda þeirra og velji þá lausn sem verður Hafnarfirði til hagsbóta og tryggir vöxt og viðgang bæjarins.


mbl.is Utankjörfundaatkvæðagreiðsla vegna stækkunar álvers hefst í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningaútspil sjálfstæðismanna í NV kjördæmi

Það er með eindæmum að fylgjast með framgöngu sjálfstæðismanna og þá sérstaklega Sturlu Böðvarssonar í aðdraganda þessara kosninga. Strandamenn og íbúar við Ísafjarðardjúp hafa árum saman beðið eftir aðgerðum í samgöngumálum og þá sérstaklega eftir því að hafnar verði í framkvæmdir við Arnkötludalsheiði. Eftir að hafa dregið lappirnar í málinu allt kjörtímabilið og frestað framkvæmdum ítrekað, meðal annars vegna aðgerða til að draga úr hinni gríðarlegu þenslu á Vestfjarðakjálkanum, er eins og venjulega hlaupið til þremur mánuðum fyrir kosningar og öllu fögru lofað og loftkastalar byggðir. Arnkötludalur er settur á vegaáætlun og á að verða umferðarhæfur næsta haust. Með því eiga öll bláu atkvæðin á vestfjörðum að vera trygg og til að tryggja sér atkvæðin af Vesturlandi eru fundnir gúmmímiljarðar til að setja í tvöföldun Vesturlandsvegar og Kjalvegur settur á koppinn. 

Hvað gengur eiginlega á? Er samgönguráðuneytið orðin stofnun þar sem ekkert er ákveðið nema á fjögurra ára fresti? Það er auðvelt að gera langtímaáætlanir án ábyrgðar því það eru að koma kosningar. Þetta verða fín slagorð fyrir Sturlu og sjálfstæðismenn á Vesturlandi þegar þeir fara á yfirreið um kjördæmið, ,,sjáið hvað við ætlum að gera". Vonandi þora einhverjir að spyrja hvað þeir hafi þá eiginlega verið að gera síðustu fjögur ja eða átta ár. Þessi loforð eru einskis virði því ekki munu þessir háu herrar muna eftir þeim fyrr en að fjórum árum liðnum.

  


Fyrstu sporin í bloggheimum

Sæl öll

 Þá er komið að því, yðar einlægur er farinn að blogga á þessum síðustu og verstu tímum. Vonandi mun einhverjum hugnast að lesa það sem hér mun birtast og einnig vonast ég til að félagi Stefán fyrirgefi mér það að gerast moggabloggari sem er víst dauðasynd á hans vígstöðvum.

Guðmundur


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband