Tími til kominn að vakna upp af draumnum/martröðinni

Álfheiður Ingadóttir er ekki af baki dottin fremur en fyrri daginn alltaf þarf að hnýta í álfyrirtækin. Hún og vinstri grænir auk ákveðins hluta Samfylkingarinnar hafa lifað í draumaheimi um að peningar og störf verði til úr engu. Ekki ólíkt frjálshyggjumönnunum sem héldu að þeir gætu ekki tapað á hlutabréfamarkaðnum. Leiðari DV lýsir firringunni sem sést best í framsetningu myndarinnar Draumalandið.  

Andri Snær Magnason rithöfundur dregur upp hjákátlega mynd af hjákátlegu landsbyggðarfólki í heimildarmynd sinni Draumalandinu sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum. Andri birtir myndskeið af fögnuði Húsvíkinga og Reyðfirðinga yfir álversframkvæmdum, sem virðist fádæma heimskulegur í ljósi drungalegs boðskapar myndarinnar.

Sú skoðun að Íslendingar ættu að beita sér gegn verksmiðjum og „bara gera eitthvað annað“ skaut rótum í þjóðarsálinni á þeim tíma sem uppgangur í þjóðfélaginu var drifinn áfram af stórfelldum lántökum. Þjóðfélagið virtist vera ósigrandi. Allt gekk upp, þótt lítið væri reynt. Þegar allt kemur til alls var það sá hæfileiki Íslendinga að taka lán, taka áhættu, stunda spillingu og veðsetja verðmætin sem olli góðærinu síðustu ár. Út frá þessari forsendu, að allt kæmi af sjálfu sér, spratt hugmyndin um að Íslendingar gætu auðveldlega sleppt því að framleiða verðmæti, án sérstakra afleiðinga. Öfgar afturhaldssinna spretta úr hinu firrta samfélagi, rétt eins og frjálshyggjustefna Sjálfstæðisflokksins á sama tíma.

Margt fólk úti á landi dreymir um að starfa við eitthvað annað en sjávarútveg eða sauðfjárrækt, en verður að horfa upp á drauma sína dofna út eða flytja burt. Ólíkt því sem margir náttúruverndarsinnar halda fram gat fólk á Reyðarfirði ekki ákveðið að vinna bara við eitthvað. Í frjálsu hagkerfi verður einhver að vilja borga fyrir vinnuna. Blind trú á því að álver leysi allt er skaðleg, en trúin á að sprotar spretti sjálfkrafa um víðan völl óháð markaðslögmálum er engu betri.

Útsýnið frá Austurvelli er mjög takmarkað. Það sýnir ekki fábreytileikann í atvinnumálum margs landsbyggðarfólks. Andri Snær hæðist að fögnuði fólksins, sem sá drauma sína rætast um að brjótast út úr einhæfni fiskvinnslu. Skilaboð hans til landsbyggðarfólksins eru í grófum dráttum: Þið getið bara gert eitthvað annað. Líkt og fólkið hafi ekki reynt það sem minnsti grundvöllur var fyrir. Viðhorfið gagnvart fólkinu minnir um margt á meint viðbrögð Frakkadrottningarinnar Marie Antoinette við bón múgsins um brauð: „Geta þau ekki bara borðað kökur?“

Öfgafullir náttúruverndarsinnar og frjálshyggjumenn byggja kröfur sínar á þetta-reddast-hagfræði. Nýtt Ísland verður að hreinsa sig af kæruleysinu og firringunni, hvort sem hún stafar af draumórum frjálshyggjumanna um lánadrifna velgengni eða draumórum um sjálfkrafa velferð án auðlindanýtingar. Sjálfshjálp lánlausrar þjóðar felst í ábyrgri verðmætasköpun. Þetta reddast ekki bara.

Vinstri Grænir og Andri Snær þurfa að endurskoða sín viðhorf í atvinnumálum. Þau eru nefnilega svo fjandi mikið 2007.


mbl.is Varar við fjárhagsstöðu Century
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Sæll guðmundur Ragnar.

Hvernig sérð þú fjármögnunina eiga sér stað?

Staða Century ath link:

http://www.amx.is/pistlar/5125/

Staða Landsvirkjunar ath link:

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/03/20/tap_landsvirkjunar_345_milljonir_dala/

Ég vill undirstrika það að tap Landsvirkjunar var á árinu 2008 þegar meðal álverð lá í 2500$/pt. En ekki á árinu 2009 þar sem meðal álverð er í kringum 1450/$pt.

Þurfum við ekki meir á raunsæi og rökréttum aðgerðum í stað þess að spóla í sömu förum hrunsins?

Með von um góð svör.

Jón B Lorange, Einar Áskelsson hafa ekki svarað. Sigurður Jónsson hefur ekki einusinni birt spurningu mína. Því vona ég að þú getir svarað.

Rauða Ljónið er eini sem reynir að halda uppi vörnum en ekki hefur hann svarað spurningu minni.

Andrés Kristjánsson

Andrés Kristjánsson, 17.4.2009 kl. 21:19

2 Smámynd: Andrés Kristjánsson

ég bíð?

Andrés Kristjánsson, 18.4.2009 kl. 01:33

3 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Sæll Andrés

Ef að þú last það út úr pistlinum frá mér að ég væri sérstakur stuðningsmaður Helguvíkur þá er það ekki rétt. Century mun ekki geta fjármagnað framkvæmdirnar í Helguvík án verulegrar aðstoðar annarsstaðar frá. Það er staðreynd sem Sjálfstæðismenn eru að reyna að halda frá fólki. Verkefnið er ekki stopp en það mun ekki komast á fullan skrið fyrr en álverð hækkar upp í 1800-2000 dollara sem verður að öllum líkindum ekki fyrr en á næsta ári.

Hvað Landsvirkjun varðar er staða hennar hreint ekki eins slæm og margir vilja vera láta. Það eina sem er klárt er að endurfjármögnunar er þörf árið 2011 og að á meðan lánshæfismat ríkisins er eins lágt og það er í dag þá er ólíklegt að frekari fjármögnun til nýrra verkefna liggi á lausu í augnablikinu.

http://www.visir.is/article/20090415/SKODANIR/65304471

Það sem að ég var að fara með málflutningi mínum var að gagnrýna aðgerðir VG sérstaklega gagnvart Ísal í Straumsvík. Með því að beita sér með ómálefnalegum hætti gegn stækkun þessa álvers sem er eitt albest rekna álverið í heiminum þá var komið í veg fyrir að nú í dag væru þúsundir að starfa við byggingu í Straumsvík akkúrat þegar að við þurfum á því að halda. En það þýðir víst ekki að bölva því sem liðið er en ég held að Álfheiður ætti að læra af því. Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi.

Hvað orkufrekan iðnað varðar þá er það mín skoðun að við ættum að leggja fé í að byggja áburðarverksmiðju hérlendis eins fljótt og kostur er. Til að byrja með gætum við nýtt umframorku í kerfinu á meðan virkjað verður fyrir orkuþörfinni. Þetta myndi gera margt í senn, skapa fjölmörg störf, stórminnka eyðslu á dýrmætum gjaldeyri, gera landbúnað hagkvæmari á Íslandi og hugsanlega verða útflutningsgrein þar sem að raforka er nánast eina hráefnið sem greiða þarf fyrir við framleiðsluna og því hvergi betra að hafa slíka framleiðslu en á Íslandi.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 18.4.2009 kl. 09:59

4 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Kærar þakkir fyrir gott svar. Ég hljóp víst á mig enda er ég að gagnrýna Helguvíkuráformin. Og gerði þér víst upp skoðanir í þá veru.

Kveðja

Andrés Kristjánsson, 18.4.2009 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband