Þangað leitar klárinn þar sem að hann er kvaldastur

Það er eitt sem að ég skil ekki við nýlega uppsveiflu Sjálfstæðisflokksins í könnunum. Getur það virkilega verið að fólk sé farið að treysta Sjálfstæðisflokknum, flokknum sem byggði síðustu kosningabaráttu á því að honum einum væri treystandi fyrir efnahagsstjórninni, til þess að taka við stjórnartaumunum á ný? Ég hreinlega trúi því ekki upp á fólk að það sé svo gleymið að það muni ekki eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn ber 95% pólitíska ábyrgð á efnahagshruninu. Slíkt væri nýtt Íslandsmet í skammtímaminni.

Það sem ég hygg að sé að koma sjálfstæðismönnnum til góða er að þeir hafa gripið til aðgerða sem reynst hafa þeim vel í gegnum tíðina. Upphrópanir um að kommúnistar og anarkistar séu að taka völdin og spil þeirra á óttan um að ástandið geti orðið enn verra ef að þeir halda ekki um stjórnvölinn. Málið er bara að ástandið getur ekki orðið verra. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að sýna það svart á hvítu að tilvera hans snýst eingöngu um að verja og styrkja stöðu auðvaldsins á Íslandi. Gömul innantóm slagorð eins og stétt með stétt eru í hrópandi ósamræmi við það sem flokkurinn hefur afrekað. Gríðarlegt bil á milli þeirra hæst og lægst launuðu sem síðasta sumar birtist í þeirri mynd að launalægsti hópurinn gat ekki einu sinni látið sig dreyma um að eignast húsnæði eða bifreið. Hann átti varla málungi matar því að fjölskylda með tvær fyrirvinnur á lágmarkslaunum hafði um 200 - 250 þúsund í ráðstöfunartekjur af hverju þurfti að greiða 150 þúsund í húsaleigu. Það þarf engan snilling til að sjá að 50-100 þúsund er ekki mikið til að greiða af fæði og klæði ásamt öðru. Þetta kerfi hefur sjálfstæðisflokkurinn markvisst byggt upp á síðustu árum og því miður tók Framsóknarflokkurinn þátt í vitleysunni um tíma. Framsóknarflokkurinn stóð að vísu fastan vörð um heilbrigðiskerfið og Íbúðalánasjóð en misréttið á launamarkaðnum fékk að aukast jafnt og þétt jafnframt því að þjónustugjöld og jaðarskattar sem jafnan koma harðast niður á þeim launalágu jukust. Þessa stefnu hefur Framsókn nú kvatt ásamt stefnu Halldórs Ásgrímssonar. Samvinna og félagshyggja verða að vera kjörorð flokksins ásamt manngildi ofar auðgildi.

En aftur að sjálfstæðisflokknum. Gamall maður í minni sveit sagði mér eitt sinn að sumir væru svo auðsveipir undir auðvaldið að þrátt fyrir að það brenndi ofan af því húsið og misþyrmdi börnum þeirra þá ætti auðvaldið atkvæði þeirra vís. Með því að vísa til lægstu hvata mannskepnunnar, óttans, virðist vera sem að sjálfstæðisflokknum sé að takast að reisa sín Potemkin tjöld yfir fortíðina til að komast aftur að kjötkötlunum með það markmið eitt að 5 prósent Íslendinga hafi það betra en hin 95 prósentin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband