Frjálslyndir Rasismi Útlendingahatur

Það hefur verið bæði áhugavert og líka svolítið hrollvekjandi að fylgjast með málflutningi Frjálslynda flokksins að undanförnu. Flokkurinn virðist hafa markað sér alveg nýja stefnu í íslenskum stjórnmálum með því að gera málefni innflytjenda að sínu aðalstefnumáli og það svo áberandi að gamla aðalstefnumálið, kvótakerfið, er horfið í skuggann. Flokkurinn virðist hafa dregið þá ályktun af velgengni sinni í skoðanakönnunum seint á síðasta ári að þarna lægju atkvæðin og því væri best að fara í smiðju Piu Kærsgaard og Dansk Folkeparti og nota ótta við útlendinga sem aðdráttarafl fyrir flokkinn.

Nú er það ekki svo að Frjálslyndir og Pia séu alveg á sama báti. Pia er jú að berjast gegn innflutningi á fólki frá miðausturlöndum en Frjálslyndir hafa sett markið hærra og vilja helst takmarka allann innflutning á fólki. Forsendurnar eru heldur ekki alveg þær sömu í baráttu flokkanna því í Danmörku er atvinnuleysi meðal innflytjenda mjög hátt og það jafnvel þó að mikil uppsveifla sé í efnahagslífinu og að borgaraflokkarnir hafi skorið niður í velferðarmálum. Á Íslandi er því þannig farið að nær allir innflytjendurnir eru í vinnu og hafa að mínu viti staðið sig vel í vinnu og eru eftirsóttir starfskraftar.

Framsetning Frjálslyndra á boðskap sínum vekur mann einnig til umhugsunar. Ég man þegar að ég horfði á mynd Michaels Moore Bowling for Columbine.  Myndin er eins og aðrar myndir Moores að það þarf að taka þeim með gagnrýnum huga en í myndinni kom þó fram áhugaverður punktur um Bandarískt þjóðfélag. Bandaríkjmönnum er stjórnað af ótta, ótta við blökkumenn, ótta við glæpi, ótta við indíána, ótta við verðbólgu, í stuttu máli sagt ótta við allt mögulegt. Nú virðist vera sem Frjálslyndir ætli að fiska á þessi mið og reyna að höfða til óöryggisins sem býr innra með okkur. Ég sá í Silfri Egils um daginn að Jón Magnússon talaði um kristilegan Repúblikanaflokk með velþóknun þegar minnst var á hinn dularfulla kristilega flokk. í Bandaríkjunum er það einmitt sá flokkur sem gengur lengst fram í að ala á ótta Bandaríkjamanna við allt og alla og það virðist vera sem að Jón sé að sækja í þá smiðju þegar maður skoðar nýlegar auglýsingar Frjálslyndra. Fyrir mitt leyti vona ég að Íslendingar falli ekki fyrir þessu útspili því ekki viljum við fara að líkja eftir Bandaríkjmönnum í þessum efnum og lifa í stöðugum ótta. Ekki er á það bætandi því nógu erum við stressuð fyrir og ég byði ekki í það ef Íslendingar yrðu  upp til hópa stressaðir og óttaslegnir.

Auðvitað þarf að ræða málefni innflytjenda til Íslands en það plan sem Frjálslyndir ætla að reyna að draga umræðuna á er ekki það rétta. Það að efla íslenskukennslu og þekkingu á íslensku samfélagi  er auðvitað forgangsatriði þegar að þessari umræðu kemur en ekki það að gera útlendinga að blóraböggli fyrir allt sem miður fer í samfélaginu. Slíkt hefur óþægilegan samhljóm með boðskap sem stundaður var gegn ákveðnum þjóðfélagshópi í Þýskalandi á fjórða áratugnum og á ekki heima í íslensku samfélagi nútímans. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekki gleyma bótamálum. Haldið þið að t.d. pólverjar fari bara heim til sín þegar ekki verður lengur þörf á þeim hér? Nei, þá verða þeir búnir að ávinna sér ýmis réttindi til bóta og þeir fara ekki fet. Þetta er þróunin í nágrannalöndunum því miður. Hví skyldi hún verða öðruvísi hér.

Ekki taka orð mín þannig að ég sé á móti því að fólk fái sín áunnu bótaréttindi, en í okkar litla þjóðfélagi þá gæti það orðið ansi þungur baggi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.4.2007 kl. 17:03

2 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Ég hef ekki sérstakar áhyggjur hvað varðar vinnumarkaðinn eða bótakerfið. Atvinnuleysisbótakerfið á Íslandi er ekki þekkt fyrir að vera sérstaklega hagstætt og því hæpið að útlendingar ílengist hér til að lifa á því. Það er líka reginmunur á því með hvaða ásetningi fólk sem kemur til Íslands kemur hingað. Fólkið kemur til að vinna og hefur einfaldlega metnað til þess. Það sem þarf að leggja áherslu á er að gera þessu fólki betur kleift að taka þátt í samfélaginu með íslenskukennslu auk þess að kenna því að éta svið og harðfisk.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 3.4.2007 kl. 19:27

3 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Ég óttast ekki innflytjendur í land okkar. Ef minnkar atvinna í landinu munu þeir fyrst missa vinnuna sem ekki hafa nema atvinnuleyfi í landinu. Þau leyfi yrðu ekki endurnýjuð og landvistarleyfi þeirra ekki heldur.

Þeir sem eru komin með meiri réttindi eru að mínu mati orðnir íslendingar og hafa sömu réttindi og við  og því yrði þeim ekkert frekar sagt upp frekar en öðrum íslendingum.

Er mjög á móti nálgun Frjálslyndafólksins að þessu máli. Hún er bara til þess fallin að skemma þá umræðu sem þarf að fara fram.

Ágúst Dalkvist, 3.4.2007 kl. 19:54

4 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Kæri Ágúst.Hef alltaf haldið að lýðræðisleg umræða væri bæði með já og nei.Er það að skemma umræðuna að ræða um mál sem sumum finnast brenna á sér.Og hafa ekki sömu skoðun á málinu og þú.Eigum við að hverfa til ástands eins og var í Kommúnistalöndunum fv.Þar sem þeir sem höfðu aðra skoðun á málunum en yfirvöld voru hrepptir í fangelsi.Það býður ekki uppá mikið mikla umræðu í sjálfum sér ef allir eru jáarar eins og við íslendingar erum kallaðir í ónefndu landi.Kært kvaddur

Ólafur Ragnarsson, 3.4.2007 kl. 21:50

5 identicon

Vissulega er lýðræðisleg umræða bæði með jái og neii en þó þurfa ábyrgir menn eins og fyrirmenn stjórnmálaflokka að passa sig að vera ekki að búa til óþarfan ótta bara til að krækja sér í atkvæði.

Frjálslyndi flokkurinn hefur ekki sýnt fram á nein vandræði hvað varðar innflytjendurna og ekki sýnt fram á neina ástæðu þess að hefta þurfi för þeirra til landsins. Ég er alltaf sáttur við að fólk hafi ekki sömu skoðun og ég en þeir sem vilja láta taka mark á sér verða að gæta að hvernig þeir bera málin fram.

Dúddi-bóndi (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband