7.2.2009 | 10:51
Ef álver skila engu í þjóðarbúið hvað gerir það þá Indriði?
Grein Indriða Þorlákssonar um þjóðhagslega hagkvæmni álvera var góð fyrir margra hluta sakir. Ekki var farið offari með sleggjudómum eins og oft vill verða þegar menn skrifa gegn álverum. Hinsvegar má e.t.v. setja út á aðferðafræðina þar sem að nær eingöngu er lagt út frá því hvað skattar álversins í Straumsvík séu stór hluti þjóðarframleiðslu.
Ólafur Teitur Guðnason svarar grein Indriða skilmerkilega á heimasíðu Alcan á Íslandi www.riotintoalcan.is.
Þar dregur Ólafur fram eftirfarandi staðreyndir:
Búrfellsvirkjun er að fullu afskrifuð og skilar því öllum tekjum af rafmagni að frádregnum rekstrarkostnaði til LV.
Þegar tekjuskattur Ísal er borinn saman við önnur fyrirtæki þá er hann hærri en af öllum sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og meira en fjórðungur af öllum tekjusköttum verslunarfyrirtækja á Íslandi. Þetta er allt spurning um samhengi.
Indriði hélt því fram að aðkeypt þjónusta innanlands í rekstri álvera væri hverfandi. 5,4 miljarðar voru greiddir til innlendra verktaka og þjónustuaðila árið 2008 af rekstri Ísal. Ólafur Teitur nefnir að fyrir þessa upphæð megi reka: ,,Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Þjóðminjasafnið, Menntaskólann í Reykjavík og Menntaskólann á Akureyri. Eða allt lögreglulið höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, með ríflegum afgangi fyrir nokkur sýslumannsembætti."
Fyrir utan þetta sem Ólafur bendir á þá hef ég grun um að þjóðarframleiðslan árið 2007 sé ekki góður mælikvarði á verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Líklegra er að þetta sé pappírsvelta sem við munum öll þurfa að greiða fyrir á næstu árum og áratugum. Held að það verð ágætt að eiga von á +7 miljörðum á ári inn í þjóðarbúið þegar þeir tímar renna upp.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.