18.1.2009 | 23:52
Framsókn til framtíðar
Það var einstaklega ánægjulegt að taka þátt í flokksþinginu um þessa helgi. Grasrótin í flokknum kom saman, sýndi mikla samstöðu og kaus sér glænýja forystu. Samþykktar voru fjölmargar framsæknar ályktanir sem verða munu gott veganesti. Þar á meðal var ályktun um stjórnlagaþing sem að Jón Kristjánsson hefur talað fyrir. Einnig náðist sátt í Evrópumálum sem að jafnvel hörðustu andstæðingarnir gátu látið sér lynda og lét vel að meginþorra þingsins sem var tilbúinn að skoða hvað í boði væri í Evrópufjölskyldunni. Góð sátt náðist um landbúnaðarmál en ekki var lent tillögu um breytingar á sjávarútvegsstefnunni. Skipuð verður nefnd sem á að skila af sér breyttri sjávarútvegsstefnu á næsta flokksþingi. Ég mun halda áfram að fylgja því máli eftir í málefnastarfi flokksins. Hinsvegar var bætt við stjórnmálaályktun flokksins að kannað verði hvað gera skuli við þær aflaheimildir sem að ríkið hefur og kemur til með að leysa til sín í gegnum bankanna við gjaldþrot útgerðarfyrirtækja. Ef að menn hafa skuldsett fyrirtæki sín svo með veðum í kvótanum að þau verði gjaldþrota er auðvitað fráleitt að afhenda þessum sömu aðilum kvótann á ný til eignar.
Ég vil óska Sigmundi til hamingju með sigurinn. Hann hefur flokkinn á bak við sig og Framsókn eru allir vegir færir með þessa ungu og fersku forystu við stjórnvölinn ef vel er á spöðum haldið.
Maður dagsins var hinsvegar Höskuldur Þór Þórhallsson. Eftir að hafa verið formaður Framsóknarflokksins styst allra frá upphafi þá sýndi hann virkilega úr hverju hann er gerður í því hvernig hann tók þeim ótrúlegu sviptingum sem þarna fóru fram. Skorað var á hann að fara í framboð til varaformanns og er nánast öruggt að hann hefði hlotið yfirburðakosningu í það embætti. Hann hafði hinsvegar lýst því yfir fyrirfram að slíkt myndi hann ekki gera og stóð við þá ákvörðun enda drengskaparmaður mikill. Höskuldar bíður mikil og góð framtíð í flokknum enda ætíð þörf fyrir menn af hans kalíberi.
Að lokum vil ég síðan óska hinni nýju forystu allra heilla í sínum störfum og hlakka til að takast á við hin krefjandi verkefni sem framundan eru ásamt þeim.
Sigmundur kjörinn formaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hverju orði sannara Guðmundur! Ég þakka fyrir gott þing um liðna helgi og hlakka til að vinna að framgangi góðra mála í framhaldinu!
Heiðar Lind Hansson, 20.1.2009 kl. 12:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.