29.10.2008 | 16:44
Samfylkingin sver af sér að vera íslenskur stjórnmálaflokkur.
Samkvæmt síðustu yfirlýsingum þá er Samfylkingin ekki íslenskur stjórnmálaflokkur heldur einungis angi af sósíaldemókrötum á Evrópuþinginu og ber því enga ábyrgð á stjórnarathöfnum ríkisstjórnar Íslands. Litla gula hænan heldur áfram að gagga eins og að hún eigi lífið að leysa en ég ætla að vona að fólk fari að sjá í gegnum Samfylkinguna og sjá hvað hún er í raun og veru.
Fjölmiðlafulltrúar Samfylkingarinnar ríða nú húsum í fjölmiðlum og á blogginu til þess að koma sér og sínum undan því að bera nokkra ábyrgð á hruninu sem að nú er staðreynd. Það gera þeir þrátt fyrir það að nályktina sé farið að leggja að Samfylkingunni langar leiðir. Þetta fólk hefur verið hvað duglegast við að saka alla aðra um spillingu og óstjórn en sá hlær víst best sem síðast hlær í þeim efnum.
Mikið hefur verið talað um krosseignatengsl að undanförnu og það sannast að mér sýnist hvergi betur en í Samfylkingunni sem verið hefur fánaberi útrásarvíkinganna undanfarinn áratuginn þrátt fyrir að flokkurinn sverji í dag af sér að hafa nokkurntímann haft eitthvað saman við hann að sælda. Ég hef grun um að þegar farið verður nákvæmlega niður í bókhald víkinganna muni sitthvað koma í ljós sem verður miður þægilegt fyrir Samfylkinguna. Það sem koma mun á daginn verður það að flokkurinn er í raun í eigu stórs hluta 30 menninganna illræmdu sem hafa notað hann og fjölmiðlaveldi sitt til þess að koma sínum málum áfram. Markmiðin hafa verið skýr, Ísland í Evrópusambandið án skilyrða, íbúðalánasjóður lagður niður og slíkum heljartökum komið á Íslenskt samfélag að tök kolkrabbans hér áður fyrr verða eins og faðmlag í samanburði.
PR maskína flokksins er nú þegar komin á fullan snúning. Kompás þáttur síðastliðins mánudags bar þess glöggt merki. Framsóknarráðherrar, Ólafur Ragnar, Davíð Oddsson og Finnur Ingólfsson réðu þar ríkjum þegar að því koma að mæra útrásina. Ekkert var minnst á húrrakór stjórnarandstöðunnar í því samhengi eða það að Samfylkingin hefur verið í ríkisstjórn í hálft annað ár og hælt víkingunum á hvert reipi. Sannleikurinn er sá að regluverkið sem hefur haldið utan um útrásina er verk ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar og kom með EES. Það er því einstaklega hjákátlegt að sjá Jón Baldvin tala á mótmælafundi þar sem að hann mótmælir eigin gerðum. Þetta er einstaklega gott dæmi um hvernig Samfylkingin reynir að vera með og á móti öllum málum á sama tíma. Ég ætla að vona að þjóðin átti sig á Janusareðli þessa flokks áður en að við þurfum að setja hann einann í ríkisstjórn til þess að hann taki einhverja ábyrgð á sig. Trúlega myndi Samfylkingin svosem finna einhverja blóraböggla til að taka klúðrin sín á sig
Það er líka að verða hjákátlegt hvernig ráðherrar Samfylkingarinnar tala hver í kapp við annan um að koma eigi fjölskyldunum í landinu til hjálpar en dagarnir og vikurnar líða og ekkert gerist og ekkert virðist vera að gerast. Allt er við sama heygarðshornið og þrátt fyrir að maður trúi engu illu upp á Jóhönnu Sigurðar þá hef ég grun um að hún fái litlu ráðið í þessum hópi. Því miður er staðan nákvæmlega eins og þegar Jóhanna stofnaði Þjóðvaka á sínum tíma því að hægri kratarnir hafa ekkert breyst þó að nafnið hafi breyst úr Alþýðuflokki í Samfylkingu og eiga ekkert sameiginlegt með Jóhönnu og hennar félagshyggju.
Ekki benda á mig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.