Heimsvaldastefnan lifir góðu lífi í Garðaríki

Eitthvað virðast skert áhrif Sovétríkjanna/Rússlands á alþjóðavettvangi vera að fara fyrir brjóstið á Rússunum. Það er er reyndar hægt að skilja það að sumu leyti þar sem það er jú skárra að hafa það skítt í risaveldi sem allir eru hræddir við en að hafa það skítt í ríki sem virðist reka á reiðanum og enginn óttast og fáir bera virðingu fyrir. Þegar þannig stendur á er ekki að undra að almenningur styðji málsstað þjóðernishyggju af miklum móð. Þetta einstaka mál með minnisvarðann í Eistlandi er því tvíbent í meira lagi af Rússa hálfu. Þeir saka Eista um fasisma og öfgaþjóðernishyggju á meðan slíkt grasserar í þeirra eigin bakgarði.

Mér finnst eiginlega nærtækast að líkja ástandinu í Rússlandi við Þýskaland fyrir valdatöku Hitlers. Langt og erfitt stríð tapaðist og þó ekki því enginn var hernaðarlegur ósigurinn frekar en hjá Þjóðverjum í Fyrri-heimsstyrjöld. Ósigrinum í Kalda stríðinu er hægt að kenna Gorbachev um þeas að hann hafi rekið rýting í bak byltingarinnar og stuðlað að ósigrinum innan frá. Skelfilegt efnahagsástand fylgir síðan í kjölfarið með uppgangi þjóðernissinna og innanlandsuppreisnum. Hringir þetta bjöllum hjá einhverjum? Það sem er síðan ólíkt í þessum samanburði er það að Rússar eiga gríðarlegt vopnabúr bæði hefðbundinna vopna og kjarnorkuvopna þrátt fyrir að hluta þess hafi verið eytt og afgangurinn í lélegu viðhaldi. Ef einhver harðlínu þjóðernissinni kæmist til valda í Rússlandi eftir næstu kosningar er eins víst að fjármagni yrði veitt í að gera Rússneska herinn bardagahæfann og Rússa þar með að alvöru leikmanni í valdatafli heimsins á ný.

Hvað varðar Eista þá skil ég mæta vel þá aðgerð þeirra að færa þessa umtöluðu styttu. Meðferð Sovétríkjanna á Eystrasaltsþjóðunum undir Stalín var engu skárri en meðferð Hitlers á gyðingum. Skipulögð útrýming á menntafólki og stórfelldir nauðungarflutningar á fólki til Síberíu voru meðal fyrstu aðgerðanna og í staðinn voru byggðir upp stórir minnihlutar Rússa í löndunum þremur til að tryggja hollustu svæðanna við Kreml. Það var því engin furða að Eystrasaltsþjóðirnar fögnuðu Þjóðverjum sem frelsurum árið 1941 og studdu hernað þeirra á allan hátt. Þetta guldu þjóðirnar síðan fyrir eftir ósigur Þjóðverja þegar ógnarstjórn Sovétríkjanna tók við á ný. Ég efast um að Íslendingar myndu vilja hafa stóra styttu af einhverjum Danakónginum á Arnarhól ef Danir hefðu farið með okkur eins og þrælanýlendu (sem dæmi má nefna meðferð Belga á Kongó). Held að það fyrsta sem hefði verið gert 18. júní 1944 hefði verið að fleygja slíku á haugana. Það að hafa styttu til að minnast sigurs Rauða hersins er eins og að hafa gapastokka nýlenduveldisins á aðaltorginu áfram. Sigur Rauða hersins þýddi aðeins eitt fyrir Eistlendinga, nýtt tímabil með ógnarstjórn Stalíns og því hafa eflaust fáir fagnað. 

 


mbl.is Rússar fordæma ESB vegna minnisvarðadeilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband