25.3.2007 | 19:46
Nimbíismi í Silfrinu
Egill Helgason talaði um nimbíisma í Silfri sínu í dag. Með því átti hann við að þær röksemdir svokallaðra umhverfisverndarsinna að það að framleiða ál hér með vatnsorku hjálpi ekki umhverfinu í hnattrænu samhengi haldi ekki vatni heldur sé það sem hann kallaði nimbíisma eða not-in-my-backyard rök. Hinum svokölluðu umhverfisverndarsinnum er semsagt alveg sama um hnattræna CO2 mengun bara ef þeir geta haldið sínu lífi áfram í friði, keyrt um á jeppanum sínum án þess að rekast á raflínur eða stíflur eða þurfa að keyra framhjá kerskálum. Það má ekki hreyfa við neinu í þeirra nágrenni alveg sama hversu mikið það gagnast öðrum jarðarbúum. Þeir af hinum svokölluðu umhverfisverndarsinnum sem bera á þetta brigður segja að það að framleiða ál á Íslandi geri svo lítið að það taki því ekki. Þeir hafa greinilega ekki gamla máltækið í huga að lítil þúfa veltir þungu hlassi.
Ef þetta er það sem hinir svokölluðu umhverfisverndarsinnar vilja held ég að þeir ættu að breyta um nafn á sinni stefnu. Í stað þess að kalla sig umhverfisverndarsinna gætu þeir til að mynda kallað sig stoppara. Nánari útfærsla á stefnunni væri í átt við gamla frost leikinn þar sem allir eiga að vera kyrrir í sömu stöðu eftir að stjórnandinn kallar frost. Sá sem fyrstur hreyfir sig hefur síðan framið brot og þarf að borga. Það er síðan spurning hvort að einhver hefur í raun og veru áhuga á að lifa í þessari tímaleysu sem stopp leikurinn er. Við eldumst jú og eigum börn alla jafna, það gæti þurft að byggja ný hús, vegi eða hafnir. En stefnan er jú sú að við á Íslandi verðum fyrsti þjóðgarður heimsins með fólk sem hluta af útstillingunni.
Hvernig væri nú að taka umhverfismálin niður af þeim stalli sem búið er að setja þau á. Umhverfismál eru eitt af þeim málum sem þarf athugunar við en það þurfa mörg fleiri mál. Velferðarmál, málefni aldraðra og öryrkja, byggðamál, landbúnaðar, heilbrigðis, menntamál og sjávarútvegsmál. Breikkum sjóndeildarhringinn og komumst útúr hringleikahúsi VG. Látum ekki trúðana taka af okkur völdin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er alveg hárrétt hjá þér að framleiða ál með vatnsorku er mun umhverfisvænna en að framleiða það með kolum.
En eigum við að nota okkar dýrmæta vatnsorku sem eftir er til að framleiða eingöngu ál?
Það mætti alveg fara að senda þjóðina í álafvötnun... fólk virðist ekki sjá neitt annað.
Það er nú þegar komin þó nokkuð mörg álver... er það ekki nóg í bili??
þessi álver sem þegar eru komin skapa heilmikla atvinnu nú þegar... við höfum ekki einu sinni nóg vinnuafl hér á landi til að dekka það... og þurfum því að flytja inn erlent vinnuafl.
það verður ekki atvinnuleysi og kreppa þó við stöldrum aðeins við.. heimurinn er að breytast svo mikið og það er mikilvægt að sjá hvert hann er að stefna áður en við höldum áfram.
mannstu eftir minnkabúunum... hvernig fór fyrir þeim? Í áliðnaðinum getur allt gerst.. hægjum aðeins á okkur. Það er ekki verið að tala um "stopp forever" það er það sem er mergur málsins..
Björg F (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 21:08
Sæl Björg
Ég man klárlega eftir minnkabúunum og líka eftir fiskeldisstöðvunum. Hvortveggja rauk upp eins og gorkúlur og fór jafnhratt á hausinn þegar offramboð olli verðhruni. Ég er heldur ekki að segja að hér þurfi að starta álver á hverju ári. Hagkerfið hér er þegar byrjað að kólna og bygging álvers í Straumsvík á næsta ári gæti verið það sem tryggði mýkri lendingu en ella. Ef menn velja síðan að byggja álver við Húsavík gæti bygging þess síðan farið af stað þar á eftir. Ég er síðan ekkert spenntur fyrir frekari uppbyggingu áliðnaðarins og þá sérstaklega ekki við Faxaflóann. Ég myndi telja að það væri hægt að nýta orkuna á fjölbreyttari hátt svo að eggin liggi ekki öll í einni körfu. Hvað varðar álmarkaðinn gengur hann upp og niður en álverð undir 1500 dollurum á tonn er ólíklegt í nánustu framtíð á meðan Kínamarkaðurinn er í jafn örum vexti og í dag.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 25.3.2007 kl. 21:41
Álverin bíða ekki á meðan við erum að "kæla" okkur eða hugsa málið eitt kjörtímabil. Þau verða bara byggða annarstaðar.
Við höfum ekki sé neinn orkufrekan iðnað, þó við höfum haft fjölda manns í leit að fyrirtækjum sem hafa áhuga á að byggja orkufrekan iðnað hér. Frá því að Álver ÍSAL var byggt á áttunda áratugnum og járnblendið á Grundartanga stuttu síðar. Það var ekki fyrr en eftirspurn eftir áli jókst með auknum kröfum um orkusparnað og hnattræna umhverfisvernd, þá tóku fyrirtæki til við að hafa áhuga á að byggja álver til að mæta þessari auknu eftirspurn á alþjóðamarkaði.
Innan fárra ára verður þessari eftirspurn fullnægt og þá hefst tími endurnýjunar og stöðugrar framþróunar, en bráðaeftirspurning verður horfin.
50% af útflutningi okkar er fiskur og 25% er ál. Við höfum ekki hugmynd um hvaða áhrif hækkandi hitastig hefur á fiskistofnana í hafinu í kringum okkur. Ef eitthvað bregður útaf þar, þá hrapa útflutningsverðmæti okkar, sem verður til þess að við getum ekki keypt inn þá vörur og þjónustu sem við erum orðin svo vön í dag.
Júlíus Sigurþórsson, 25.3.2007 kl. 22:01
Alveg sammála þér Guðmundur. Afhverju heyrir maður aldrei neitt frá umhverfissinnunum um hvað almenningur getur gert til að sporna við mengun? Það er alltaf ráðist á þá sem framleiða það sem almenningur krefst. Eins og að SÁÁ færi að mótmæla hjá vínbændum í Frakklandi.
Þú segir Björg, að fólk sjái ekkert annað en ál. Að tækifærin séu óþrjótandi á öðrum sviðum. Í fyrsta lagi sjáum við auðvitað miklu fleira en ál og í öðru lagi þá hafa þeir sem sjá öll tækifærin verið beðnir að hjálpa Vestfirðingum í sinni kreppu. Árangurinn af því er núll og nix eins og Smári Geirson forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og Samfylkingarmaður orðaði það í ágætu hádegisviðtali á st.2 í gær (laugard.). Það er ekki rétt Björg að Íslendingar fáist ekki til vinnu í álverum. Störfin þar eru hálaunastörf. Það gengur hins vegar erfiðlega að fá ísl. starfsfólk í láglaunastörf s.s. í ferðaþjónustu.
Guðmundur segir í pistlinum hér að ofan;
Það má ekki hreyfa við neinu í þeirra nágrenni alveg sama hversu mikið það gagnast öðrum jarðarbúum. Þeir af hinum svokölluðu umhverfisverndarsinnum sem bera á þetta brigður segja að það að framleiða ál á Íslandi geri svo lítið að það taki því ekki.
En svo segja hinir sömu að Ísland sé að verða stærsti álframleiðandi Evrópu.
Sömu umhverfis og mengunarrök voru notuð gegn álverinu í Straumsvík 1967 og í dag. Þá sem nú var aðal hugmyndafræðingur álvers andstæðinga, Hjörleifur Guttormsson.
Þetta er allt á sömu bókina lært. Þegar ein staðhæfingin er hrakin þá kemur ný. Hverjum finnst gaman að slást við vindmillur?
Gunnar Th. Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 23:06
Það er að fjara undan “umhverfissinnum” rök þeirra er of einfeldningsleg.
Okkur er nauðsinlegt að auka útflutning til þess að dekka innflutninginn.
En við þurfum að virkja smekklega. Umhverfismál eru svo óskaplega mikið
meira en virkjanir eða uppistöðulón. Við þurfum að stórauka fjárframlög til
umhverfismála. Skógrækt, barátuna við uppblástur,snyrtilega aðstöðu á
fegurstu stöðum hálendissins o.s.fr.v.
Snorri Hansson, 27.3.2007 kl. 15:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.