Hver ætlar að leysa vanda Vestfjarða?

Gísli Tryggvason kom með athugasemd hjá mér í dag varðandi hvaða lausnir Framtíðarlandið og flokkarnir sem því tengjast S og VG hafa hugsað upp fyrir byggðavandann á Vestfjörðum. Mér varð fátt um svör enda viðkvæði VG að fólk eigi að gera eitthvað annað og hjá Framtíðarlandinu er mönnum að ég held sama um Vestfirði svo lengi sem Vestfirðingar séu ekki að fara að virkja, leggja vegi eða neitt í þá áttina. Hjá Samfylkingunni kom Guðmundur Steingrímsson með það útspil um daginn að hægt væri að ,,hvetja" landsbyggðarfólk til að sækja um þau störf sem losnuðu hjá ríkinu sem hægt væri að vinna í fjarvinnslu. Dofri Hermannsson lapti þetta upp eftir nafna en málið er að þetta er ekki ný hugmynd og fyrri tilraunir hafa oft endað með ósköpum. Grundvöllurinn fyrir starfsemi af þessu tagi er háhraða internettenging sem í dag fyrirfinnst ekki allstaðar á Vestfjörðum til að mynda. Þess utan verður að nefna það að á þessum umhverfisverndartímum þá myndi slík fjarvinnsla kalla á ótaldar ferðir til höfuðstaðarins til funda og annars með tilheyrandi mengun.

Hér er þörf bæði víðtækari og róttækari aðgerða. Til að byrja á byrjuninni þarf að gera Vestfirðingum kleift að stunda nám sitt ef ekki í heimahögunum þá amk. nærri þeim. Á Ísafirði starfar framhaldsskóli en í öðrum byggðarlögum er aðeins um grunnskóla að ræða. Reynt hefur verið að koma á háskólanámi í gegnum fjarfundabúnað á Ísafirði og er það að sjálfsögðu af hinu góða. Reynslan hefur sýnt og ég get persónulega vottað þar um að það er ekki auðvelt að fara að heiman til náms (ég var 14 ára) og snúa síðan heim aftur að loknu námi sem á takmarkað erindi við heimabyggðina. það sem ég held að fólk hugsi heldur ekki alveg til enda er að á mennta eða háskólaárunum nær fólk sér oft í maka og þegar þetta nám fer fram fjarri heimahögunum eru jú minni líkur á að þar tengist fólk sé með sama viðhorf til átthaganna fyrir Vestan. Það að flytja til Vestfjarða á nýjan leik hef ég prófað sjálfur um eins árs skeið og var ég þó í þeirri aðstöðu að konan mín var af sama svæði. Ekki entumst við hjónakornin lengi í sveitasælunni og fluttum aftur á mölina með skottið á milli lappanna. Takmörkuð þjónusta og fábreytt atvinnulíf vóg þyngra á metunum en þeir kostir sem óneitanlega eru við að búa í fámennu samfélagi með sinni samheldni og afslöppuðu andrúmslofti. Ég tel amk. að lykillinn að því að þeir sem taka þá ákvörðun að flytjast til Vestfjarða haldi áfram að búa þar sé að bæta þjónustu, atvinnulíf og samgöngur.

Hvað varðar þjónustu þá er nauðsynlegt að koma upp fleiri sýndarframhaldsskólum á Vestfjörðum. Patreksfjörður, Hólmavík og Reykhólar gætu til að mynda verið starfsstöðvar þar sem starfa myndi umsjónarmaður en nánast öll kennsla færi fram í gegnum fjarfundabúnað. Efling háskólakennslu á Ísafirði með sama hætti og á hinum þrem fyrrnefndu stöðum yrði fólki gert kleift að stunda háskólanám samhliða því á Ísafirði sé áhugi fyrir hendi. Ýmiskonar endurmenntun gæti síðan farið fram á kvöldin fyrir íbúa á svæðinu til að nýta búnaðinn sem best.

Atvinnulífið hefur átt undir högg að sækja svo að ekki sé meira sagt. Kvótaflutningar og gjaldþrot hafa fækkað hinum hefðbundnu störfum við sjósókn og ekki stendur landbúnaðurinn tryggum fótum. Til að snúa þessari þróun við þarf róttækar aðgerðir. Mér dettur helst í hug skattaívilnanir til einstaklinga og fyrirtækja. Þetta mynd þjóna tvennum tilgangi, annarsvegar að gera þeim auðveldara fyrir sem nú þegar stunda atvinnu sína á Vestfjörðum og hinsvegar að lokka til Vestfjarða fyrirtæki eða einstaklinga með góðar viðskiptahugmyndir. Hvað sjávarútvegsmálin varðar myndi ég telja að útvíkkun á byggðakvótahugtakinu þar sem ákveðinn kvóti yrði eyrnamerktur Vestfjörðum en gæti hinsvegar verið framseljanlegur milli báta eða byggðarlaga, þó einungis innan Vestfjarða eða á minni svæðum innan Vestfjarða gæti verið hluti af lausninni. Þessar aðgerðir myndu styrkja sjávarútveginn og vonandi efla atvinnulífið samfara því. Síðan er spurningin hvort hægt sé að byggja upp minni iðnað á svæðinu og jafnvel orkufrekann iðnað í smáum stíl. Vestfirðingar eiga um 300 Gwh af orku í Hvalá í Ófeigsfirði sem hægt væri að nýta ef tækifæri gæfust til að byggja upp iðnað þá væntanlega á stór Ísafjarðarsvæðinu. Á það er hinsvegar að líta að iðnaður þarf markað og ef sá markaður er í Evrópu eða Ameríku þá er erfitt að keppa við þá aðila sem sem eiga styttra að sækja á markaðinn. Það þyrfti því að vera eitthvað virkilega sérstakt ef það ætti að vera samkeppnishæft á heimsmarkaði. Vonandi gætu bestu heilar Vestfjarða komið upp með einhverja frumlega hugmynd. 

Annars væri ánægjulegt ef stjórnmálaflokkarnir myndu nú ropa útúr sér hvað þeir hafa hugsað sér að gera í málefnum landsbyggðarinnar ekki eru þeir allavega að flíka því þessa dagana. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Það er eiginlega nóg hjá manni að endurtaka endirinn á þessari færslu::  Annars væri ánægjulegt ef stjórnmálaflokkarnir myndu nú ropa útúr sér hvað þeir hafa hugsað sér að gera í málefnum landsbyggðarinnar ekki eru þeir allavega að flíka því þessa dagana. 

Sigfús Sigurþórsson., 21.3.2007 kl. 21:10

2 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Í örstuttu mál.

"háhraða nettengin er mannréttindi, ekki lúxus."

Flotttur pistill, gildir um fleiri staði en Vestfirði. NA- land, margar sveitir á Norðurlandi, (þeir sem eru utan akstursfæri frá Akureyri) Austurland og austanvert Suðurland. Eru svæði sem þurfa að fá þann möguleika að mennta sig í fjarnámi.

Ég er að gera þetta, í fullri vinnu og 24gra eininga námi nú á vorönn. (þessvegna eru pistlar mínir svona stuttir.) Án þess að hafa almennilega nettenginu væri þetta vonlaust. Samnemendur mínir sem eru utan við þéttbýliskjarna eru oft í bölvuðu veseni með að ná í gögn frá kennurum. Á mínu heimili eru spilaðir fyrirlestrar klukkutímum saman í góðri mynd og með hljóði. Það er eitthvað sem er ekki hægt á þessum þráðlausu netum sem sveitafólki er boðið upp á í dag. Svo er ISDN tengingarnar bara grín, blekkir fólk til að fjárfesta í dýrum símabúnaði, sem skilar svo sára litlu meira en innhringibúnaður.

Góð nettengin gefur mikla möguleika á menntun. Því er fyrsta skrefið að koma þeim málum í gott lag á ÖLL heimili í landinu.

Samkvæmt stjórnarskránni eiga allir að hafa jafnan rétt til menntunar og háhraðanet er stórt atriði í því.

Júlíus Sigurþórsson, 21.3.2007 kl. 21:26

3 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Ekkert við þessu að segja hjá Jónasi nema HEYR HEYR!!!!

Ágúst Dalkvist, 21.3.2007 kl. 21:58

4 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Júlíusi átti það að vera þarna hjá mér áðan en ekki Jónasi

Ágúst Dalkvist, 21.3.2007 kl. 23:19

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég er hlynntur því að strandbyggðirnar fái aftur til sín fiskveiðiheimildir sem tapast hafa. Það þarf orðið að leiðrétta misréttið í kvótamálunum. Það má ekki gleyma því að flest bæjarfélögin á þessu svæði döfnuðu fyrst og fremst vegna útgerðar og fiskvinnslu. Það þarf líka að huga að öðrum og nýrri þáttum. Einhvers staðar þarf samt að byrja enduruppbygginguna.

Haukur Nikulásson, 21.3.2007 kl. 23:42

6 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

Flottur pistill

Haltu áfram á sömu braut

Árelíus Örn Þórðarson, 22.3.2007 kl. 00:39

7 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Júlíus.

Það er alveg hárrétt að þetta á við á mun fleiri stöðum en á Vestfjörðum, þar er þörfin samt trúlega brýnust. Foreldrar mínir hafa fengið ISDN tengingu og það helsta sem það skilar er að þau hafa tvær línur þannig að síminn er ekki blokkeraður á meðan þau nota tölvuna. Hárhraðatenging er mannréttindamál og ég held að ríkið ætti að nýta sér það að búið er að skilja grunnetið frá Símanum og kaupa þar öll hlutabréf og taka sér taki í samskiptamálunum með uppbyggingu háhraðanets.

Haukur 

Kvótakerfið er gallað á því er enginn vafi. Megum samt ekki gleyma því að þjóðir sem ekki hafa haft kvótakerfi hafa drepið niður fiskistofna sína þannig að það er ekki alslæmt. Gallinn við kvótakerfið er hvernig veiðiréttinum er úthlutað og hvernig hann er framseldur. Held að það væri réttast að við hverja kvótaúthlutun héðan í frá yrði 2,5% meira af þorsk og ýsukvóta á hverju ári sett í byggðakvóta sem síðan dreifðist niður á byggðirnar eftir þörfum og með því snúið þróuninni við. Það versta við þessa leið er að hún krefst mikilla ríkisafskipta og hugsanlega væri hægt að leysa vandamálið með nýjum markaðsreglum.   

Guðmundur Ragnar Björnsson, 22.3.2007 kl. 12:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband