17.3.2007 | 15:58
Moð á miðjunni. Af moðhausum og moldvörpum
Hugleiðing og hugarflug um litróf stjórnmálanna
Hér fyrir nokkrum árum gátu menn á nokkuð auðveldann hátt skilgreint litróf íslenskar stjórnmála. Til hægri voru Sjálfstæðismenn vanalega með áherslu á hin klassísku hægri málefni, frjálshyggju og fleira. Á miðjunni voru Framsóknarmenn sem hölluðu til hægri og vinstri eftir því hvað forystan taldi þörf fyrir á hverjum tíma. Áherslurnar gátu verið á félagshyggju eitt skiptið og jafnvægi í ríkisfjármálum í annað. Lítillega til vinstri var síðan Alþýðuflokkur með áherslu á félagsmál en þó fremur Evrópusinnaður. Lengst til vinstri var síðan Alþýðubandalagið með áherslur sem gátu verið allt frá norrænum til kúbansks sósíallisma.
Í dag hefur þetta breyst lítillega. Sjálfstæðismenn hafa í mörgum málum þokast lengra inná miðjuna sérstaklega forystusveitin á meðan flokkurinn hefur einnig innan sinna raða harða liberalista. Þetta gæti auðvitað endað með óróa og klofningi því eins og góður maður sagði þá líkist þetta stundum því þegar reynt er að smyrja lítilli smjörklípu yfir stórt samlokubrauð.
Á sama tíma hefur Framsóknarflokkurinn hallað sér verulega til hægri og hefur ekki komist vinstra megin við miðjuna síðan Steingrímur var og hét. Þessi hægri slagsíða hefur ekki verið sérstaklega vinsæl hjá öllum innan flokksins og það er eflaust ekki síst sú gremja sem hefur valdið fylgistapi flokksins.
Samfylkingin var að nafninu til samsuða Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Kvennalistans en Flokkurinn varð fljótlega að stærri Alþýðuflokki sem hefur reynst erfitt að gera samstilltan allavega þannig að það haldi til langframa. Flokkurinn hefur síðustu árin sótt inná miðjuna og eflaust hefur það farið fyrir brjóstið á mörgum vinstri kratanum sem hefur þá hlaupið yfir til Steingríms J.
Vinstri Grænir eru einfaldlega Alþýðubandalagið undir nýju nafni með eitt nýtt stefnumál sem er orðið tískumál sem enginn getur verið á móti. Þeir eru eini flokkurinn sem ekki hefur hreyft sig á skalanum fyrir utan þann stutta tíma sem þeir voru hluti af Samfylkingunni.
Það er því orðið þröngt um Framsóknarmenn á miðjunni því margir telja greinilega að þar liggi fylgið. Spurningin er því hvernig Sjálfstæðismönnum og Samfylkingu reiðir af við að teygja sig lengra og lengra útfyrir það sem kalla má kjarnasvæði flokksins. Einnig er spurningin hvort að Framsóknarmenn átti sig á því að flokkurinn var stofnaður til að stuðla að framförum, jafnrétti, félagshyggju og almennri velferð en ekki til að gerast einhver frjálshyggjuflokkur. Ef svo heldur fram sem horfir endar hann hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn. Það yrði nú saga til næsta bæjar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ágætis pistill frá greiningardeild þessa fjölmiðils. Vil þó benda á að greinanda hefur orðið lítillega á í umfjöllun um VG. Þeir eru ekki Alþýðubandalagið og þeir höfða til stórs hóps kjósenda vegna þess að þeir hafa mannúð og samkennd með náunganum að markmiði ásamt fleiri góðum málum. Þetta er ótrúleg einföldun og niðrandi athugasemd um allan þann stóra hóp fólks sem hyggst kjósa vi.græna í vor.
Takk fyrir fína pistla
Jenný Anna Baldursdóttir, 17.3.2007 kl. 16:07
Takk fyrir það Jenný.
Auðvitað á þessi greining ekki við alla þá sem innan VG eru. Flokkurinn hefur náttúrulega breyst mikið síðan hann var stofnaður en samt verður að muna það að harður kjarni innan flokksins er kominn beint frá Alþýðubandalaginu með millilendingu í Samnfylkingunni. Það verður gaman að sjá hvað verður ef VG sest í ríkisstjórn og hvaða sjónarmið verða ofaná þegar huga þarf að fleiru en umhverfismálum og velferðarmálum.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 17.3.2007 kl. 18:35
Tiltölulega rétt greining að mínu mati. Hef áður spáð svolítið í þetta með svipuðum niðurstöðum og þetta með VG verður að teljast réttmætt finnst mér.
Ragnar Bjarnason, 17.3.2007 kl. 20:26
VG er ekkert annað en fjórða kynslóðin af flokki sem stofnaður var 1930, og VG tekurað sjálfsögðu með sér í púkk nytasama sakleysingja eins og áa þeirra var siður, mannkynsagan endurtekur sig.
kveða
Ingi A.
Ingi A. (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.