Breytingar breytinganna vegna

Var að skoða síðustu Gallup könnun. Það sem kemur mér mest á óvart í þeirri könnun er sú staðreynd að Frjálslyndir halda ekki ferð sinni áfram niður á við. Þeir fara uppávið um 1% úr 5,4% í 6,4%. Ég hafði búist við tölum í kringum 3-3,5% enda allir aðrir flokkar nánast búnir að afskrifa samstarf við flokkinn vegna hinn öfgakenndu skoðanna þeirra í innflytjendamálum. Skil reyndar ekki að það sé grundvöllur fyrir slíku á Íslandi. Á Íslandi eru nánast engir útlendingar á framfæri samfélagsins eins og þekkist á norðurlöndum þar sem atvinnuleysi meðal innflytjenda er landlægt, jafnvel í góðæri. Á Íslandi eru flestir inflytjenda frá Austur-Evrópu og kristnir á meðan í Danmörku og Svíþjóð eru innflytjendurnir að stórum hluta múslimar og frá Miðausturlöndum. Ég skil því mætavel að það ríki ákveðin tortryggni gagnvart útlendingum á Norðurlöndum á meðan ég á erfitt með að skilja slíka tortryggni hjá samlöndum mínum. Vonandi að fólk átti sig á því hverskonar málstað það er að styðja og komi í veg fyrir að hér verði til öfgaafl til frambúðar.

Hvað aðra flokka varðar á ég enn erfitt með að skilja flótta kjósenda til vinstri. Þar á ég ekki bara við flótta frá stjórnarflokkunum til stjórnarandstöðunnar heldur sérstaklega frá Samfylkingunni til VG. Er fólk virkilega að láta blekkjast af þeirri grænu slikju sem Steingrímur J. og hinir gömlu kommarnir eru búnir að sveipa sig í? Er fólk virkilega að láta það í ljósi að þessi flokkur sé hæfur til að fara með hagstjórn á Íslandi. Með svona fylgistölum verður þessi flokkur allt of áhrifaríkur og gæti hugsanlega komið málum í gegn sem meira en 90% landsmanna myndu ekki hugnast.

Samfylkingin stendur í stað milli mánaða og hlýtur það þó að vera léttir á þeim bænum en samt vonbrigði að ekki skuli þokast uppávið og sérstaklega hlýtur það að vera áhyggjuefni að konur flýja flokkinn eins rottur sökkvandi skip. Hryllir konum virkilega svo við því að Ingibjörg Sólrún verði forsætisráðherra eða vilja þær bara frekar Steingrím?

Framsóknarmenn geta ekki verið annað en óánægðir með útkomuna því eftir að hafa þokast uppávið í febrúarkönnuninni. Spurningin er hvort að flokksþingið og stjórnarskrármálið sé farið að hafa áhrif eða hvort þetta eigi Framsóknarmenn inni fyrir næstu könnun.

Sjálfstæðismönnum hlýtur að hafa svelgst á morgunkaffinu eftir að hafa séð könnunina í morgun enda allþekkt að flokkurinn kemur venjulega betur út í könnunum en í kosningum. Ef ekki verður bragarbót á þessu þá er hætt við að flokkurinn verði nálægt 30% í kosningunum sem getur varla talist góð útkoma á þeim bænum.

Það sem veldur mér persónulega áhyggjum er að hófsömu miðjuflokkarnir þeas. Samfylking og Framsókn standa fremur veikt í þessari könnun og því er hætt við að stöðugleikinn sem verið hefur hér á landi heyri sögunni til eftir kosningar. Það er þó hægt að hugga sig við að enn er langur tími til kosninga og margt getur enn breyst. Kjósendur geta enn áttað sig á þeirri staðreynd að breytingar breytinganna vegna er ekki alltaf það sem þarf.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Ef ég á að segja alveg eins og er þá er ég ekki hlynntur áframhaldandi stjórnarmynstri. Mér finnst vera kominn tími á að hvíla sjálfstæðisflokkinn og væri alveg til í vinstri stjórn. Það sem mér hugnast ekki er vinstri stjórn með vinstri slagsíðu og Steingrím J. sem forsætisráðherra. Slíkt yrði algert slys.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 9.3.2007 kl. 21:08

2 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Það er kanski allt í lagi að minna á þennan rétt en ég tel hinsvegar að ríkisstjórnin hafi gert rétt í að nýta ekki þennan frest. Íslenskur vinnumarkaður hefur hingað til jafnað sjálfur út sveiflur og mun gera það áfram. Það sem liggur hinsvegar að baki þessa málflutnings er hinsvegar það sama og Dansk Folkeparti sem er andúð á útlendingum. Eins og ég sagði í pistlinum er eins og málin standa í dag engin ástæða til slíks.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 9.3.2007 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband