4.3.2007 | 10:21
Andstaða við álver þá og nú
Í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið undanfarið bæði hvað varðar stækkun álversins í Straumsvík og Kárahnjúkavirkjun og framkvæmdir á Austurlandi finnst mér rétt að benda á nokkur atriði sem mér finnst merkileg við þessa umræðu.
Fyrir 40 árum síðan stóð til að reisa á Íslandi fyrsta stóriðjufyrirtæki á sögu landsins. Í fyrsta sinn skyldu orkulindir landsins beislaðar til að stuðla að auknum hagvexti og framförum í landinu. Þá eins og nú voru skiptar skoðanir um framkvæmdirnar og þá eins og nú var línan að mestu leyti dregin milli stjórnar og stjórnarandstöðu í málinu. Þáverandi stjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks studdi málið með ráðum og dáð meðan stjórnarandstaðan skipuð Framsókn og Alþýðubandalagi barðist gegn því. Helstu rök Alþýðubandalagsmanna voru þau að erlent fjármagn væri rót alls ills og slíkt ætti að stöðva á meðan Framsóknarmenn virðast annaðhvort hafa verið á móti vegna staðarvalsins eða vegna þess að málið var stjórnarfrumvarp. Umræðan um málið var eins og búast mátti við ómálefnaleg í meira lagi og fann ég á sínum tíma aðeins eina blaðagrein þar sem fjallað er um málið á efnislegan hátt án þess að toga og teygja staðreyndir til að fella að eigin málsstað.
Því miður hefur Íslendingum lítið farið fram á þessum fjörtíu árum. Enn litast umræðan af ómálefnalegum dylgjum sem ekki byggja á röksemdum og þegar rætt er um aðra kosti í stöðunni eru margir fljótir til að byggja upp skýjaborgir þar sem hátækni og þekkingariðnaður virðist vera töfralausnin í dag. Að mér vitandi hefur enginn komið með dýpri útfærslu á slíkum lausnum og því hefur slíkt hjal meiri pólitík á bak við sig en tengingu við raunveruleikann. Nú eins og þá er það nánast skylda stjórnarandstöðunnar að vera á móti málefnum ríkisstjórnarinnar og öfugt.
Auðvitað er málið ekki eins einfalt og þetta hljómar en fyrir 40 árum síðan átti td. Alþýðuflokksmaður sem var á móti stóriðju eflaust erfitt uppdráttar við að koma sínum á framfæri í Alþýðublaðinu og hið sama hefði átt við Alþýðubandalagsmann sem hefði verið stuðningsmaður að koma sínu fram í Þjóðviljanum. Í dag þekkist ekki ritskoðun eða ritstýring af þessu tagi. Allir geta komið sínum skoðunum á framfæri sem vilja og með því skapað málefnalega umræðu. Það er því alger óþarfi að fólk láti stýrast af hinum gömlu hömlum flokkshollustunnar. Það er í lagi fyrir vinstri græna að vera stuðningsmenn stóriðju sem minnkar hnattrænan útblástur CO2. Það er í lagi fyrir Samfylkingarmenn í Hafnarfirði að vera með stækkun álvers í Straumsvík þrátt fyrir að flokksforystan hafi lýst yfir andstöðu sinni og svo má lengi telja.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að stækkun í Straumsvík sé einkamál Hafnfirðinga en þar sem þeir eiga að kjósa um málið er brýnt að þar fari fram frjáls og óheft umræða um málið og að núverandi bæjarstjórn geti tjáð sig um málið hvernig sem flokksforystunni líkar það. Múlbinding bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í málinu er gott dæmi um það að þó ekki finnist lengur hreinræktuð flokksmálgögn (þó að Mogginn líkist stundum kosningablaði D-listans stuttu fyrir kosningar) þá er gamli flokksaginn enn til staðar og hvergi er það greinilegra en hjá vinstri grænum þar sem taktfastur riverdance ræður ríkjum. Held að gamli Kim Il Sung hefði getað verið stoltur af því hvernig flokkurinn leggur sínar línur og allir dansa með.
Málfrelsið lifi
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
...ætli bæjarstjórnin í Hafnarfirði sé ekki bara enn að semja sinn dans...býst við að það verði línudans þar sem hægt er að dansa einn í honum...
Jóhanna Fríða Dalkvist, 4.3.2007 kl. 15:56
Þessi grein er afbragðs góð.Takk fyrir !!
Snorri Hansson, 6.3.2007 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.