Kraftaverk á páskum

Það er gott að Chelsea menn eru vel trúandi. Það er það eina sem þeir hafa til að halda í þessa dagana.
mbl.is John Terry: Getum náð Manchester United
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af áli og álframleiðslu

Þeir sem hafa lesið þessa bloggsíðu hafa eflaust orðið varir við áhuga höfundar á álframleiðslu og því sem henni tengist. Fyrr hefur komið hér fram á síðunni yfirlit yfir álver í heiminum og nú er komið að því að uppfæra þann lista. Höfundur gerir fyrirvara um áreiðanleika heimilda þar sem álver eru misgóð í að flíka sínum upplýsingum og halda þeim uppfærðum ásamt því að í fleiri tilvikum var erfitt að ákvarða hver orkugjafinn var sérstaklega með minni álverin sem fá sína orku frá landsnetum. Tvö verkefni í Malasíu gat ég ekki staðfest en rafmagnið var amk. til staðar og vinna að því er virtist langt komin með þau.

Helstu niðurstöðurnar voru þessar. Heildarframleiðslugeta liggur í kringum 30 miljónir tonna á ári. Álframleiðsla með vatnsorku er nálægt 18 miljónum tonna eða um 60% en þessa tölu ber að taka með varúð. Meðalstærð álvera er 235.000 tonn. Hér að neðan er síðan Excelskjal þar sem hægt er að glugga nánar í tölurnar og leika sér aðeins með þær.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Björgunarsveitir farnar að pikka upp ferðalanga

Það er með þessa páska eins og aðra að fólk heldur áfram að koma sér í klandur á hálendinu. Sem betur fer eigum við björgunarsveitirnar og Landhelgisgæsluna til að redda málunum þegar í óefni er komið. Það vill samt brenna við að fólk ani af stað að nauðsynjalausu í erfiðum veðurskilyrðum og sé þannig að bjóða hættunni heim. Held að mottóið þessa páska verði að fara varlega og stefna að því að koma heil heim á ný. 

PS. Batakveðjur til vélsleðamannsins 


mbl.is Þyrla Landhelgisgæslunnar sækir slasaðan vélsleðamann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri sveiflan að ganga til baka?

Vinstri grænir halda áfram niðursveiflu sinni  og í þetta sinn er það ekki Íslandshreyfingin sem hagnast á því heldur Sjálfstæðisflokkurinn.  Ríkisstjórnin er komin inn á ný og er það eflaust ekki síst að þakka Íslandshreyfingunni. Samfylkingin er orðin föst í þessum 20% og Framsókn í 8% á meðan hinir flokkarnir rokka upp og niður á milli kannana. Mér segir reyndar svo hugur um að meginlínurnar fram að kosningum muni skýrast í næstu tveim könnunum eða svo þar sem það mun koma fram hvaða flokkar muni sækja í sig veðrið fram að kjördegi og hvaða flokkar muni fara halloka á lokasprettinum. 
mbl.is Sjálfstæðisflokkur með rúm 40% og VG með 21%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein Bandaríki - Tvær utanríkisstefnur

Það verður frólegt að sjá hvernig þetta endar allt saman. Það er annars merki um að Bush er orðin algerlega einangraður að Demókratar telja sig komast upp með að reka sjálfstæða utanríkisstefnu eða amk. leggja grunn að slíkri.

mbl.is Nancy Pelosi komin til Sádí-Arabíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftasöfnun Framtíðarlandsins farin út um þúfur?

Var forvitinn að vita hvernig undirskriftasöfnunin gengi og leit inn á Framtíðarlandið. 8749 undirskriftir komnar eftir meira en tvær vikur þar sem talsvert hefur verið auglýst í fjölmiðlum og mikill þrýstingur verið settur á alþingismenn.  Nú hef ég ekki heyrt um að nein markmið hafi verið sett en þetta hljóta þó að vera ákveðin vonbrigði fyrir forsvarsmenn samtakanna.

Svo að þessi tala, 8749, sé sett í samhengi þá eru þetta um 7,8% þeirra sem ætluðu að kjósa vinstri flokkana tvo og Íslandshreyfinguna samkvæmt síðustu Gallup könnun en það eru þeir flokkar sem flagga umhverfismálum hvað mest sem stefnumálum. Hvað varðar stærsta flokk umhverfisverndarsinna þá er fjöldinn einungis 16% af væntanlegum kjósendum VG.

Auðvitað verður að gera ráð fyrir að einhver hluti kjósenda flokkanna sé ekki nettengdur eða með nægilega tölvukunnáttu en það breytir ekki heildarmyndinni. Er þetta vísbending um að stærstum hluta kjósenda finnist umhverfismál bara hreint ekkert mikilvæg? Þýðir þetta að fylgi VG og Íslandshreyfingarinnar sé aðallega tilkomið vegna óánægju með aðra flokka en ekki vegna stefnumála þeirra?

Við spurningunum er auðvitað ekkert einhlítt svar en þegar sama ríkisstjórnin hefur setið í 12 ár er kanski ekki nema von að ákveðinn hluti kjósenda kjósi eitthvað allt annað til þess eins að breyta til. Spurningin er síðan þá hvort að það verði til góð eður ei.


Breska innrásarliðið náðað

Þá er diplomataleikurinn varðandi sjóliðana að klárast. Þetta er auðvitað allt með hefðbundnum hætti þar sem enginn má tapa andlitinu. Íranir náða brotamennina til hátíðabrigða (en ekki vegna hótana um loftárásir) og Bretar munu eflaust hefja áróðursherferð heimafyrir nú síðdegis eftir að sjóliðarnir eru komnir heim um að þetta hafi ekki kostað þá neitt. Hvað síðan raunverulega fór fram á bak við tjöldin verðum við eflaust að bíða í 50 ár með að vita eða svo þegar leynd verður lyft af skjölum varðandi málið. Veit ekki með ykkur en ég er þegar farinn að bíða spenntur.LoL
mbl.is Páskagjöf Ahmadinejad til Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómarganga Rauðu djöflanna

Það er nú vel við hæfi að Fergussynir haldi til Rómar svona í lok páskaföstunnar. Í boði er möguleiki á að komast í undanúrslit Meistaradeildarinnar en þangað hafa mínir menn ekki komið síðan 2002, ótrúlegt en satt. Gestgjafarnir eru svosem ekki árennilegir, á ágætis siglingu í Serie A og slógu Lyon út fremur auðveldlega í síðustu umferð. Hinsvegar er Ronaldo í fantaformi og restin af liðinu og það eina sem vantar er að Rooney finni skotskóna aftur. Nú er bara að vona að drengirnir þurfi syndaaflausn hjá Benedikt í fyrramálið eftir að hafa niðurlægt Rómverjana.Wink

Glory glory Man Utd.


Rússar að gera sig breiða?

Eru Rússar að gefa það til kynna að þeir vilji ríkisstjórn hliðholla sér áfram? Eða eru þeir að segja að Jútsjenkó eigi að segja af sér? Veit ekki hvað við myndum segja ef Grænlendingar segðu okkur að nú þyrfti að þyrfti að ná málamiðlun um rammaáætlun í virkjunarmálum. Yrðum ekki hrifin held ég.

mbl.is Rússar hvetja Úkraínumenn til að komast að málamiðlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndir Rasismi Útlendingahatur

Það hefur verið bæði áhugavert og líka svolítið hrollvekjandi að fylgjast með málflutningi Frjálslynda flokksins að undanförnu. Flokkurinn virðist hafa markað sér alveg nýja stefnu í íslenskum stjórnmálum með því að gera málefni innflytjenda að sínu aðalstefnumáli og það svo áberandi að gamla aðalstefnumálið, kvótakerfið, er horfið í skuggann. Flokkurinn virðist hafa dregið þá ályktun af velgengni sinni í skoðanakönnunum seint á síðasta ári að þarna lægju atkvæðin og því væri best að fara í smiðju Piu Kærsgaard og Dansk Folkeparti og nota ótta við útlendinga sem aðdráttarafl fyrir flokkinn.

Nú er það ekki svo að Frjálslyndir og Pia séu alveg á sama báti. Pia er jú að berjast gegn innflutningi á fólki frá miðausturlöndum en Frjálslyndir hafa sett markið hærra og vilja helst takmarka allann innflutning á fólki. Forsendurnar eru heldur ekki alveg þær sömu í baráttu flokkanna því í Danmörku er atvinnuleysi meðal innflytjenda mjög hátt og það jafnvel þó að mikil uppsveifla sé í efnahagslífinu og að borgaraflokkarnir hafi skorið niður í velferðarmálum. Á Íslandi er því þannig farið að nær allir innflytjendurnir eru í vinnu og hafa að mínu viti staðið sig vel í vinnu og eru eftirsóttir starfskraftar.

Framsetning Frjálslyndra á boðskap sínum vekur mann einnig til umhugsunar. Ég man þegar að ég horfði á mynd Michaels Moore Bowling for Columbine.  Myndin er eins og aðrar myndir Moores að það þarf að taka þeim með gagnrýnum huga en í myndinni kom þó fram áhugaverður punktur um Bandarískt þjóðfélag. Bandaríkjmönnum er stjórnað af ótta, ótta við blökkumenn, ótta við glæpi, ótta við indíána, ótta við verðbólgu, í stuttu máli sagt ótta við allt mögulegt. Nú virðist vera sem Frjálslyndir ætli að fiska á þessi mið og reyna að höfða til óöryggisins sem býr innra með okkur. Ég sá í Silfri Egils um daginn að Jón Magnússon talaði um kristilegan Repúblikanaflokk með velþóknun þegar minnst var á hinn dularfulla kristilega flokk. í Bandaríkjunum er það einmitt sá flokkur sem gengur lengst fram í að ala á ótta Bandaríkjamanna við allt og alla og það virðist vera sem að Jón sé að sækja í þá smiðju þegar maður skoðar nýlegar auglýsingar Frjálslyndra. Fyrir mitt leyti vona ég að Íslendingar falli ekki fyrir þessu útspili því ekki viljum við fara að líkja eftir Bandaríkjmönnum í þessum efnum og lifa í stöðugum ótta. Ekki er á það bætandi því nógu erum við stressuð fyrir og ég byði ekki í það ef Íslendingar yrðu  upp til hópa stressaðir og óttaslegnir.

Auðvitað þarf að ræða málefni innflytjenda til Íslands en það plan sem Frjálslyndir ætla að reyna að draga umræðuna á er ekki það rétta. Það að efla íslenskukennslu og þekkingu á íslensku samfélagi  er auðvitað forgangsatriði þegar að þessari umræðu kemur en ekki það að gera útlendinga að blóraböggli fyrir allt sem miður fer í samfélaginu. Slíkt hefur óþægilegan samhljóm með boðskap sem stundaður var gegn ákveðnum þjóðfélagshópi í Þýskalandi á fjórða áratugnum og á ekki heima í íslensku samfélagi nútímans. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband